Rétturinn atvinna
Rétturinn atvinna

Pistlar

Örlítið meira líf í höfnunum
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 4. ágúst 2023 kl. 08:37

Örlítið meira líf í höfnunum

Þegar þessi pistill kemur í hendur ykkar lesendur góðir þá er ágústmánuður komin í gang og hann þýðir nokkra hluti, til að mynda afmælið hjá mér. Síðasti mánuðurinn á fiskveiðiárinu 2022–2023 og líklega fjölda færabáta sem munu fara að stunda ufsaveiðar út frá Sandgerði og Grindavík.

Júlímánuður sem er liðinn byrjaði nefnilega með miklu fjöri því strandveiðiflotinn, sem var að mestu í Sandgerði og einhverjir í Grindavík, hélt áfram að róa þangað til veiðar voru stöðvaðar um miðjan júlí.

Þá varð nú frekar rólegt í höfnunum og eftir voru nokkrir bátar sem héldu áfram á færaveiðum, þá að mestu á ufsaveiðum sem hefur gefið góða veiði. Reyndar mun þeim bátum fjölga því t.d. þegar þessi pistill er skrifaður, þar sem ég er staddur á Egilsstöðum, var Sara ÍS að koma frá Suðureyri og nýr bátur sem var keyptur til Akraness kemur líka á ufsann, báðir bátarnir munu róa frá Sandgerði.

Báturinn sem var keyptur til Akraness er nú reyndar nokkuð þekktur á Suðurnesjum og þá aðallega í Grindavík því báturinn var lengi gerður út þaðan og hét þá Guðmundur á Hópi GK.

Af stærri bátunum var lítið að frétta. Aðalbjörg RE var eini dragnótabáturinn sem réri frá Suðurnesjum í júlí og var með 54 tonn í sjö róðrum, landað í Sandgerði, og mest 11 tonn í róðri. Af þessum afla var báturinn með aðeins 7,3 tonn af þorski, restin var koli og ufsi.

Stóru línubátarnir réru lítið. Fjölnir GK var með 95 tonn í einni löndun og var langa og keila uppistaðan í því, eða samtals 76 tonn. Sighvatur GK var með 40 tonn í einni löndun og var þorskur af því 22 tonn.

Reyndar hóf netabáturinn Erling KE veiðar eftir stopp síðan í maí. Hann var með um 40 tonn sem landað var í þremur róðrum í þremur höfnum. Fyrst um 30 tonn í Vestmannaeyjum, síðan um sjö tonnum í Grindavík og að lokum þremur tonnum í Sandgerði, uppistaðan í þessum 40 tonnum var ufsi.

Enginn línubátur réri frá Suðurnesjunum, nema þessar tvær landanir hjá Sighvati GK og Fjölni GK.

Lítum á færabátana. Ragnar Alfreðs GK með 20,5 tonn í fimm róðrum og mest 6,1 tonn í róðri, Margrét SU 7,8 tonn í sjö, mest 2,9 tonn í róðri, en báturinn byrjaði á strandveiðum og fór síðan yfir á ufsann, Sunna Líf GK 7,5 tonn í átta, sama með hana og Margréti SU, mest 2,3 tonn í róðri, Addi Afi GK 7,1 tonn í tveimur róðrum, Guðrún GK 10,5 tonn í sjö, byrjaði á strandveiðum og fór síðan yfir á ufsann, mest 3,2 tonn í róðri og að lokum Sindri GK 8,4 tonn í þremur. Allir bátarnir að landa í Sandgerði.

Byr GK með 6,8 tonn í sjö róðrum í Grindavík, Kvika GK 6,6 tonn í sjö en báturinn var á strandveiðum frá Arnarstapa á svæði A, kom síðan til Sandgerðis og landaði þar 2,3 tonnum af ufsa í einni löndun. Hafdalur GK 18 tonn í ellefu, mest 3,6 tonn í einni löndun, landað í Grindavík.

Miðað við hvernig undanfarnir ágústmánuðir hafa verið þá hefur alltaf verið mjög góð veiði á færunum og þá munu dragnótabátarnir líka fara að róa, þannig að það mun verða örlítið meira líf í höfnunum þremur.