Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Pistlar

KOGN
Föstudagur 13. október 2023 kl. 06:22

KOGN

Fátt vekur meiri athygli á samfélagsmiðlum en þegar málsmetandi menn opna umræðu á mál sem geta reynst snúin í samfélaginu. Og þegar stórt er spurt. Á að sameina íþróttafélögin Keflavík og Njarðvík? Það er alveg ljóst að slík sameining hefur bæði kosti og galla. Sitt sýnist hverjum.

Þrátt fyrir að stjórnendur Reykjanesbæjar bendi á að aldrei hafi meiri fjármunir verið lagðir til íþróttastarfs en nú verður ekki betur séð en félögin í bænum séu að dragast aftur úr íþróttafélögum á höfuðborgarsvæðinu og víðar um landið. Bæði hvað varðar aðstöðu og einnig hvað varðar rekstrarframlög frá sveitarfélaginu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ég er einn þeirra sem tel að sameining þessara íþróttafélaga sé í raun það sem þurfi til að ljúka sameiningu sveitarfélaganna. Við sameininguna var eitt helsta þrætueplið hvað hið sameinaða sveitarfélag ætti að heita. Auðvitað mátti það alls ekki heita Keflavík, Njarðvík eða Hafnir. Það varð að heita eitthvað annað. Nafnið sem valið var í lýðræðislegri kosningu er svo lélegt að það hefur enn ekki náð festu hart nær 30 árum eftir sameiningu. Líklega yrði þannig nafn sameinaðs íþróttafélags helsti ásteitingarsteinninn fyrir sameiningu. KOGN væri þannig vitrænt nafn. Orð sem er ekki til í íslensku máli. Svolítið eins og JYSK, sem allir vita að er bara Rúmfatalagerinn. Þannig væri KOGN stytting á KeflavíkogNjarðvík. Vandamálið mun þá snúast um að K er á undan N. En komist menn á þann stað að ræða nafnið, þá er kannski          áfangasigur unninn.

Það er ljóst að umhverfi íþróttastarfs er búið að breytast mikið á undanförnum árum. Kröfurnar eru meiri. Mikil ábyrgð er lögð á herðar örfárra starfsmanna og sjálfboðaliða sem vinna ómetanlegt starf. Íþróttafélögin þurfa fleiri starfsmenn til að geta sinnt sómasamlega því starfi sem íbúar sveitarfélagins óska eftir. Skiptir þá engu máli þótt einhverjir vilji halda því fram að íþróttastarf sé ekki lögbundinn hluti af rekstri sveitarfélaga. Rekstur íþróttafélaganna er í raun ekkert annað en framlenging á starfsemi sveitarfélagins.

Kjörnir fulltrúar eiga að vinna að heill bæjarfélagsins, þeir hafa fengið lýðræðislegt umboð til að stjórna. Það er sömuleiðis hlutverk stjórnenda íþróttafélaganna að veita iðkendum (viðskiptavinum sínum) bestu mögulega þjónustu hverju sinni, með vel menntuðum og færum þjálfurum og leiðbeinendum. Sé sú þjónusta betri undir einu merki en tveimur er það skylda þeirra í það minnsta að setjast niður og ræða málin og setja tilfinningar sínar til hliðar.

Íþróttaiðkun bætir fólk og gerir einstalinga betri. Íþróttir efla félagslega hæfni og kunnáttuna að vinna sem liðsheild. Blómlegt og vel rekið íþróttastarf er merki um heilbrigt sveitarfélag.