Rúmfatalagerinn
Rúmfatalagerinn

Pistlar

Flestir á veiðum utan við Sandgerði
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 25. nóvember 2022 kl. 07:42

Flestir á veiðum utan við Sandgerði

Ja hérna hér. Eftir einungis mánuð eruð blessuð jólin komin með allri sinni hátíð, mat, ljósum og gjöfum. Núna mánuði fyrr ber nú lítið á því að eitthvað jólalegt sé í gangi. Ekki eitt einasta snjókorn hefur fallið og varla að fólk hafi þurft að skafa bíla.

Veðurfarið hefur verið ansi gott núna í nóvember nema um það leyti sem þessi pistill er skrifaður því að leiðindaveður hefur verið og gert sjósókn bátanna frekar stopula.

Veiði línubátanna, sem eru komnir suður, hefur verið mjög góð og flestir eru á veiðum utan við Sandgerði. Reyndar eru togbátar frá Grundarfirði þar líka á veiðum; Farsæll SH, Sigurborg SH og Runólfur SH, þeir landa svo allir í Grundarfirði.

Netabáturinn Kap VE hefur verið með netin sín við Garðskagavita og utan við Sandgerði. Sá bátur kemur til Keflavíkur og liggur þar, fer svo út aftur og fiskar í sig. Fer svo til Vestmannaeyja með aflann. Núna hefur báturinn landað 97 tonnum í tveimur róðrum og mestallt veitt á þessum slóðum sem minnst er á.

Heimanetabátarnir hafa fiskað nokkuð vel. Halldór Afi GK með 13,5 tonn í sjö róðrum, Maron GK 47 tonn í tíu og mest 8,7 tonn og Grímsnes GK með 64 tonn í þremur róðrum. Hann er ennþá að eltast við ufsann og af þessum afla eru 56 tonn af ufsa. Hefur Grímsnes GK verið að landa í Þorlákshöfn. Erling KE er í Sandgerði og er kominn með 82 tonn í níu róðrum og mest 17 tonn.

Talandi um Erling KE. Saga bátsins er búin að vera vægast sagt mjög skrautleg núna árið 2022.  Þetta byrjaði ekki vel því  það kviknaði í 233, Erling KE, sem Saltver ehf. hafði átt síðan árið 2005. Við eldsvoðan var báturinn dæmdur ónýtur og núna voru góð ráð dýr því að vetrarvertíðin 2022 var að hefjast og vel yfir 1.000 tonna kvóti á Erling KE óveiddur.

Sem betur fer fyrir Saltver ehf. þá átti Hólmgrímur netabátinn Langanes GK upp í slipp í Njarðvík, þar sem hann var í geymslu. Saltver kaupir bátinn og nefnir hann Erling KE – og hefur bátnum verið róið á netum núna mestallt þetta ár og aflinn kominn vel yfir 1.000 tonn á árinu.

Hugur Saltversmanna var þó að reyna að finna annan bát sem væri þá stærri netabátur og kannski nýrri. Það hafðist á endanum því að fyrirtækið hefur keypt bátinn Mars RE sem er 29 metra langur netabátur sem kom til landsins árið 2019 og stundaði einungis grálúðunetaveiðar þar ár – og síðan ekkert meira. Nýi báturinn er smíðaður árið 1988 og því töluvert yngri en báðir Erling KE. 233 Erling KE var smíðaður árið 1964 og var 37 metrar á lengd, núverandi Erling KE var smíðaður árið 1972 í Stálvík í Garðabæ og er sá bátur 32 metrar á lengd.

Nýi Erling KE er kominn til Njarðvíkur og planið var að setja bátinn í slipp í Njarðvík og gera kláran til veiða á komandi vetrarvertíð. Hvað verður þá um núverandi Erling KE? Það er ekki vitað að þessu en spurning hvort Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum skoði þann möguleika á að fá bátinn.

Vinnslustöðin hefur gert út Kap VE sem er minnst á hérna að ofan og gerði líka út Brynjólf VE til togveiða og netaveiða yfir vertíðina. Núna hefur Brynjólfi VE verið lagt og allri áhöfn bátsins sagt upp. Svo núna vantar þá annan netabát.