Rafiðnaðarfélag
Rafiðnaðarfélag

Pistlar

Eru tengsl milli Breiðdalsvíkur og Suðurnesja?
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
þriðjudaginn 10. maí 2022 kl. 07:29

Eru tengsl milli Breiðdalsvíkur og Suðurnesja?

Suðurnesjamenn geta verið ansi sáttir með aprílmánuð sem nú er lokið, því mikið líf var í höfnunum þremur og afli góður. Mest var um að vera í Grindavík. Eftir að hrygningarstoppinu lauk fór allur línubátaflotinn sem var við veiðar utan við Sandgerði til Grindavíkur og hefur verið þar. Veiði bátanna var góð og skal hérna litið á nokkra.  

Rétt er að hafa í huga að bátarnir lönduðu bæði í Sandgerði og Grindavík.  Hafrafell SU með 289 tonn í 23 róðrum og Sandfell SU með 279 tonn í 23 róðrum. Ansi mikill afli hjá þessum tveimur bátum sem eru í eigu Loðnuvinnslunar á Fáskrúðsfirði. Öllum afla af bátunum var síðan ekið til vinnslu á Fáskrúðsfirði.

Nýsprautun sumardekk
Nýsprautun sumardekk

Kristján HF með 263 tonn í 20 róðrum. Auður Vésteins SU með 232 tonn í 23 róðrum. Gísli Súrsson GK með 199 tonn í 22 róðrum. Indriði Kristins BA með 191 tonn í átján róðrum. Háey I ÞH með 165 tonn í ellefu veiðiferðum og öllu landað í Grindavík. Daðey GK með 152 tonn í sextán róðrum. Sævík GK með 134 tonn í sextán, báðir líka í Grindavík.  

Dragnótabátar Nesfisks réru lítið í apríl, enda var mikill fiskur í boði á markaði og Nesfiskur keypti fiskinn þar í staðinn, enda er kvóti bátanna orðinn lítill. Tveir dragnótabátar sem réru frá Sandgerði fóru yfir 100 tonnin. Maggý VE var með 114 tonn í níu róðrum og Aðalbjörg RE sem var með 106 tonn í tíu. 

Hjá netabátum var Erling KE langhæstur af bátunum frá Suðurnesjunum. Hann var með 308 tonn í tuttugu róðrum og mest öllu landað í Sandgerði.  Bátarnir hans Hólmgríms réru í apríl en Grímsnes GK réri reyndar aðeins til 11. apríl. Var hann þá búinn að landa 79 tonnum í níu róðrum. Öfugt við undanfarin ár þar sem að Grímsnes GK hefur stundað netaveiðar allt árið og verið með aflahæstu netabátum landsins þá mun svo ekki vera núna í ár, því ákveðið hefur verið að Grímsnes GK muni fara á rækjuveiðar og þá leggja upp hjá Meleyri á Hvammstanga, en það fyrirtæki á Nesfiskur.  Grímsnes GK hefur haft rækjuheimild og fékk úhlutað um 97 tonnum af rækju núna en báturinn hefur ekki verið á rækju síðan árið 2016. 

Talandi um þennan bát, Grímsnes GK, sem við höfum nokkuð oft minnst á í þessum pistlum mínum, að núna er ég staðsettur á Breiðdalsvík og það snjóar og snjóar. Hélt að það væri komið sumar. Hmm. Næsti bær við Breiðdalsvík heitir Stöðvarfjörður. Árið 1963 kom þangað nýr bátur sem hét Heimir SU og var sá bátur gerður út að mestu til síldveiða fram til ársins 1967, þegar að nýr og stærri Heimir SU kom. Gamli Heimir SU var seldur til Hnífsdals og fékk þar nafnið Mímir ÍS. Með því nafni var báturinn gerður út í sjö ár, fram til 1974 þegar að báturinn var aftur seldur austur og þá til Eskifjarðar. Hét þá Hafalda SU. Báturinn kom til Suðurnesja árið 1978 þegar að Ásgeir hf. í Garði kaupir bátinn og fékk hann þá nafnið Ásgeir Magnússon GK. Árið 1981 fékk hann nafnið Árni Geir KE og 1985 kom nafn Happasæls KE á bátinn. Með því nafni var báturinn gerður út til 2001. Áður en báturinn fékk nafnið Grímsnes GK árið 2005, þá hét báturinn Sædís HF og Mímir ÍS. Sem sé, ég næ svo sem næstum því að tengja staðinn sem ég er á núna við Suðurnesin, og reyndar hefur það verið þannig síðustu ár að minni línubátarnir frá Suðurnesjum eins og t.d. Daðey GK og Sævík GK hafa róið frá Breiðdalsvík yfir sumarið og eitthvað fram á haustið.

Annars er framundan 11. maí, sem er lokadagur vetrarvertíðarinnar árið 2022 og mun aðeins verða fjallað nánar um það síðar.