Karlakórinn
Karlakórinn

Pistlar

Allir minni línubátarnir farnir
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 18. ágúst 2023 kl. 06:00

Allir minni línubátarnir farnir

Tíminn æðir áfram og núna þegar þessi pistill kemur þá er ágúst orðin svo til hálfnaður – og það þýðir að stutt er í nýtt fiskveiðiár.

Annars er ég staddur núna á Hótel Smyrlabjörgum ekki langt frá Hornafirði og eins og gefur að skilja þá er nú ekki miklar tengingar við sjávarútveginn á Suðurnesjum við Smyrlabjörg, svo við förum þá lítið í þá sálma.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Núna í sumar hefur enginn bátur verið að róa á línu frá Suðurnesjum fyrir utan Vísisbátana sem réru aðeins í júní og júlí, voru þá aðallega að eltast við keilu og löngu. Minni bátarnir hafa ekkert verið á veiðum þangað til núna því Helgi skipstjóri á Margréti GK hóf róðra núna um helgina og landaði um átta tonnum í fyrsta róðri sínum í Sandgerði á línu. Þennan afla fékk hann á fjórtán þúsund króka, eða u.þ.b. 240 kíló á bala uppreiknað. Það telst nú vera mjög gott miðað við ágúst.

Það er nú þannig að allir minni línubátarnir eru farnir í burtu og Margrét GK mun væntanlega líka fara – en það gæti breyst ef veiðin hérna fyrir sunnan verður góð.

Í það minnsta þá eru engir 29 metra togarar á línuslóðinni en þeir hafa hangið á þeirri slóð í mars og apríl og þá rétt utan við Sandgerði eins og ég hef skrifað um.

En það var ekki bara einn bátur sem hóf veiðar með línu í ágúst því Maron GK hóf netaveiðar í Faxaflóanum og hefur veiðin verið ansi góð hjá honum. Maron GK hefur landað um 25 tonnum í fimm róðrum og mest 7,6 tonn í róðri.

Maron GK er eins og við vitum í eigu Hólmgríms en hann hefur gert út frá Suðurnesjum í vel yfir þrjátíu ár. Flaggskipið hans, Grímsnes GK, eyðilagðist í eldi í vetur og það þýðir að Maron GK er núna flaggskipið hans, sem sé stærsti báturinn hans. Ekki er vitað á þessari stundu hvað verður, hvort stærri bátur muni koma í staðin fyrir Grímsnes GK.

Meira um línubátana því að núna eru allir bátarnir frá Einhamri í Grindavík (Auður Vésteins SU, Vésteinn GK og Gísli Súrsson GK) komnir til Stöðvarfjarðar. Þeir voru allir stopp í um fimm til sex vikur og tekur smá tíma að koma þeim í gang, varðandi dælur og fleira. Núna í ágúst munu bátarnir reyna fyrir sér á grálúðunni út af af austfjörðum, sem eru hátt í 50 mílur þar út, sem er nú þokkalega langt.

Dúddi Gísla GK er líka kominn á veiðar en hann er kominn til Skagastrandar og hefur landað þar fjórum tonnum í einni löndun. Hópsnes GK er þar líka en hann er bölum og hefur landað þar 26 tonnum í sex róðrum og mest 8,2 tonn í róðri. Af þessuim afla hjá Hópsnesi GK er þorskur 12,7 tonn og ýsa um 11 tonn.