Samfylkingin
Samfylkingin

Pistlar

61.000 tonna loðnukvóti gerir ekkert fyrir Suðurnes
Föstudagur 29. janúar 2021 kl. 11:32

61.000 tonna loðnukvóti gerir ekkert fyrir Suðurnes

Hafi einhvern tímann verið ástæða til þess að bölva þá er það núna. Því einn lengsti norðanáttarkafli var að klárast þegar að þessi pistill er skrifaður – og það er nú hægt að segja, ansi vel valin orð yfir svona leiðindakafla.

Þessi langi og leiðinda norðankafli gerði það að verkum að ansi margir bátar fóru frá Sandgerði til Grindavíkur en þar náðu bátarnir nú aðeins að vera á veiðum skammt frá ströndinni og veiðin hjá þeim var frekar dræm. Sem dæmi þá var Dóri GK með 2,6 tonn í einni löndun og Beta GK með 4,1 tonn í tveimur. 

Sævík GK fór reyndar lengra eða alla leið að Þjórsárósum og landaði meðal annars í Vestmannaeyjum, kom þar með 11,1 tonn. Hina róðrana landaði báturinn í Þorlákshöfn. 

Bátarnir sem Einhamar á og gerir út komu suður og þeir byrjuðu á svipuðum slóðum, t.d. var Vésteinn GK með þrettán tonn í tveimur, Auður Vésteins GK ellefu tonn í tveimur og Gísli Súrsson GK með 15,4 tonn í einni löndun, allir lönduðu í Þorlákshöfn.

Þó að veiði línubátanna hafi verið dræm þá var netaveiði ansi góð. Erling KE var með 71,6 tonn í fjórum, Langanes GK með 44 tonn í fimm og Grímsnes GK með 76 tonn í fimm, allir að landa í Grindavík. Núna er allur flotinn komin á miðin út af Sandgerði og verður fróðlegt að sjá hvernig veiðin verður.

Núna hafa allir þessir netabátar sem að ofan eru nefndir fiskað yfir 100 tonn hver bátur. Grímsnes GK er aflahæstur með 144 tonn í ellefu, Langanes GK er rétt á eftir með 142 tonn í tólf og Erling KE 120 tonn í þrettán. Síðan kemur Maron GK með 51 tonn í fimmtán, Hraunsvík GK 26 tonn í tíu og Halldór Afi GK fimmtán tonn í níu.

Reyndar er það nú þannig að þó að miðin út af Sandgerði hafi verið í hálfgerðri hvíld, þar sem bátarnir gátu ekki verið að veiðum þar fyrir utan, þá voru nú samt sem áður verið að veiða þar. Ansi margir 29 metra togarar voru á veiðum utan við Sandgerði, t.d. Pálína Þórunn GK, Berglín GK, Frosti ÞH, Áskell ÞH, Vörður ÞH, Jón á Hofi ÁR og Drangavík VE frá Vestmannaeyjum.

Norðanáttin hefur haft áhrif á veiðar hjá dragnótabátunum en þeir hafa ekki komist mikið út.  Sigurfari GK er með 44 tonn í níu, Benni Sæm GK 38,3 tonn í níu og Siggi Bjarna GK 38,3 tonn í tíu. Þarna munar ansi litlu á þeim tveim síðastnefndu eða aðeins ellefu kílóum.

Benni Sæm GK er reyndar kominn í slipp núna því meðal annars á að skipta um lit og útlit á bátnum og setja  hann í sama útlit og hinir bátarnir hjá Nesfiski eru í. Benni Sæm GK og togarinn Sóley Sigurjóns GK eru einu skipin í flota Nesfisks sem eiga eftir að fara í nýja útlitið.

Reyndar þá var það nú þannig að frystitogarinn Baldvin Njálsson GK sem er í eigu Nesfisks var fyrsti frystitogarinn á Íslandi sem landaði afla árið 2021. Kom togarinn með 508 tonn í land eftir sextán daga á veiðum eða 32 tonn á dag, af því var ýsa 198 tonn og þorskur 119 tonn. 

Hrafn Sveinbjarnarson GK átti síðan löndun númer þrjú árið 2021 en hann kom með 531 tonn í land eftir átján daga túr eða 30 tonn á dag. Af því var ýsa 166 tonn, þorskur 135 tonn og karfi 119 tonn. Vigri RE var númer tvö af frystitogurunum til þess að landa afla.

Nú stefnir í að loksins verði veidd loðna hérna við Ísland en búið er að gefa út 61 þúsund tonna loðnukvóta, því miður þá skiptir það hafnir og fyrirtæki á Suðurnesjum engu máli hvort það sé veidd loðna eða ekki, því engin bræðsla er á Suðurnesjum og enginn er að frysta loðnu eins og var svo algengt á árum áður.

Það eina sem menn hafa kannski notið góðs af varðandi loðnuna er að fá loðnu í beitu fyrir línubátana. 61 þúsund tonna loðnukvóti er reyndar dropi í hafið miðað við hversu mikilli loðnu var landað hérna á árum áður – og Suðurnesin áttu ansi stórar löndunartölur varðandi loðnuna, t.d. á árunum á milli 1990 og 2000 var vel yfir 100 þúsund tonnum af loðnu landað í höfnunum í Sandgerði og Grindavík.

Gísli Reynisson // gisli@aflafrettir.is