Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Mannlíf

Við erum öll allskonar
Örvar Bessason
Thelma Hrund Hermannsdóttir
Thelma Hrund Hermannsdóttir skrifar
fimmtudaginn 21. júlí 2022 kl. 08:00

Við erum öll allskonar

„Ég er einn af þeim sem hef átt vægast sagt slæma upplifun af námi frá því að ég var sex ára gamall og reiknaði alls ekki með því að ég færi aftur í nám,“ segir Örvar Bessason, 47 ára fjölskyldufaðir. Hann dreif sig í nám eftir að hafa verið brotinn af skólakerfinu og útskrifaðist af nýverið af Háskólabrú.

Skólaganga Örvars litaðist mjög af því að hann er með ADHD en þegar hann var yngri þótti hann einfaldlega vera óþekkur og jafnvel vitlaus. Þau skilaboð fékk hann í gegnum skólagönguna og hafði áhrif á sjálfsmynd hans. „Ég trúði því sjálfur að ég væri bara óþekkur og vitlaus,“ segir hann og bætir við: „Um 40 árum síðar fékk ég greiningu og það mætti segja að tuttugu mínútum eftir að ég tók lyf við ADHD hafi allt líf mitt breyst.“

Örvar byrjaði í Háskólabrú Keilis síðastliðið haust en þar á undan tók hann grunnám hjá Mími Símenntun. Hann stefnur nú á að læra guðfræði við Háskóla Íslands og er skólinn búinn að samþykkja umsókn hans. Hann segir ástæðuna fyrir því að hann ákvað að drífa sig í nám vera að hann vildi breyta um lífsviðhorf og hjálpa fólki að eignast betra líf. „Ég var einn af þeim sem þurfti að breyta um lífsstíl og lífsviðhorf, drakk of mikið og leið einfaldlega ekki vel. Eftir að ég hætti drykkju og náði að fóta mig aftur í lífinu langaði mig einfaldlega að hjálpa fólki að eignast betra líf og til þess þarf ég að verða mér úti um réttu tækin til þess og mín leið er í gegnum guðfræði,“ segir Örvar.

Public deli
Public deli
Örvar ásamt börnum sínum

Á milli þess sem Örvar sinnir fjölskyldunni og situr á skólabekk stundar hann stangveiði, fluguhnýtingar og spilar og syngur í hljómsveit. „Ég spila á bassa og syng í hljómsveit sem enginn hefur nokkurn tímann heyrt um og líklega er það eina markmið þeirra hljómsveitar. Við erum nokkuð stór hópur manna og kvenna sem öll hafa einhverjar tengingar í tónlist. Við hittumst einu sinni í viku til þess að spila saman og spjalla, það mætti segja að þetta væri eins og stór hávær saumaklúbbur sem nærist á rokki og róli,“ segir hann.

Fólk á öllum aldri stundar nám við Háskólabrú Keilis og segir Örvar að „gamall karl“ eins og hann hafi gott af því að hlusta á og taka til sín misjöfn sjónarmið. „Nemendur og kennarar vinna saman að því að kalla fram allt það besta í okkur nemendum sem í mörgum tilfellum hafa ekki náð fótfestu annars staðar í námi. Kennararnir eru einnig vel menntaðir og víðsýnir sem hefur hentað mér einstaklega vel. Við erum öll allskonar og með þeim orðum þakka ég kærlega fyrir mig,“ segir Örvar að lokum.