Thrifty Fólksbílar

Mannlíf

Steinleið yfir Jón við altarið
Jón Steinar flottur á fermingardaginn í ljósmyndastúdíói Heimis Stígssonar.
Sunnudagur 21. mars 2021 kl. 07:24

Steinleið yfir Jón við altarið

Jón Steinar Sæmundsson fékk hljómflutningstæki þar sem hægt var að taka upp lög úr útvarpinu.

„Það var náttúrlega búinn að standa yfir undirbúningur að deginum um nokkra hríð í sambandi við fataval á kappann og fermingamyndatökuna. Varðandi fatavalið, þá man ég að ég var ekkert hrifinn af því að jakkaföt yrðu keypt og hvað þá bindi. Ég var tilbúinn að fallast á spariskyrtu ef ég fengi að vera bara í gallabuxum. Sú hugmynd mín fékk nú ekki ýkja mikinn hljómgrunn hjá foreldrunum eins og sjá má á myndinni. Niðurstaðan var nýjar sparibuxur, skyrta, vesti og bindi,“ segir Jón Steinar Sæmundsson, verkstjóri hjá Vísi hf. í Grindavík og áhugaljósmyndari.

Jón á góðar minningar frá fermingunni sinni og við báðum hann að rifja daginn upp og segja okkur frá því helsta.

„Ég fermdist 17. apríl 1983 og man að veðrið þennan dag var alveg meiriháttar gott, glampandi sól og logn. Myndatakan fór fram einhverjum dögum fyrir fermingardaginn á Ljósmyndastofu Suðurnesja, hjá þeim ágæta ljósmyndara Heimi Stígssyni.

Minn árgangur var sá fyrsti sem fermdist í nýrri Grindavíkurkirkju sem hafði verið tekin í notkun á haustdögum árið áður.

Það sem stendur upp úr sjálfri athöfninni í kirkjunni var að þegar kom að altarisgöngunni var orðið ansi heitt í kirkjunni og ennþá heitara undir fermingarkyrtlinum sem maður þurfti að klæðast yfir sparifötin. Þar ég svo kraup við altarið steinleið yfir mig en faðir minn sem var mér við hlið var snöggur að grípa kappann áður en hann skylli í gólfið og kippti mér út um hliðardyr og út á tröppur. Þá var maður vaknaður og fyrsta hugsun var að rjúka inn og klára þessa athöfn, sem og ég gerði. Tók engu tali um að ég þyrfti meira frískt loft eða vatnssopa og eitthvað þvíumlíkt. Ég rauk inn og kláraði dæmið með stæl. Þetta er eitthvað sem maður vildi helst gleyma þarna á staðnum en í dag er þetta svo sannarlega bara ein af skemmtilegum minningum sem ég á í farteskinu,“ segir Jón þegar hann rifjar upp eftirminnilegan fermingardag upp.

Fermingarveislan var haldin heima hjá Jóni að lokinni athöfn eins og tíðkaðist í þá daga. „Þetta var kaffiveisla þar sem borðin svignuðu undan veitingum. Gestir komu víðsvegar að og voru rúllandi við yfir allan daginn og langt fram á kvöld þeir síðustu.

Gjafirnar voru hvorki af lakara taginu eða verri endanum. Foreldrar mínir gáfu mér forláta Sharp hljómflutningsgræju með tvöföldu kassettutæki og aðalkosturinn við græjuna þótti manni vera sá að geta tekið upp vinsælustu lögin í þeim vinsæla útvarpsþætti Lög unga fólksins. Svo fékk ég armbandsúr, hálsmen, Polaroid-myndavél, rúmföt og ýmislegt fleira ásamt einhverjum peningagjöfum sem voru á þessum tíma ekki orðnar eins vinsælar og í dag. Ég var alsæll með fermingardaginn minn,“ segir Jón Steinar Sæmundsson.