Reykjanesbær Vatnsnesvegur
Reykjanesbær Vatnsnesvegur

Mannlíf

  • Skemmtilegt rigningarsumar
  • Skemmtilegt rigningarsumar
Laugardagur 1. september 2018 kl. 11:23

Skemmtilegt rigningarsumar

- segir Guðrún Sigríður Jóhannesdóttir, sérfræðingur í heilbrigðislausnum hjá Origo

HVERNIG VAR SUMARIÐ 2018? // „Helsta afrek mitt og fjölskyldunnar rigningarsumarið 2018 var hringferð um landið til að hitta Rún Kormáks vinkonu mína og fjölskyldu hennar á Borgarfirði Eystri,“ segir Guðrún Sigríður Jóhannesdóttir, sérfræðingur í heilbrigðislausnum hjá Origo, spurð út í sumarið 2018.
 
„Suðurlandið var lagt í næturakstri á meðan blóðmáninn lýsti okkur leiðina. Á Borgarfirði eystri gengum við í Stórurð og Dyrfjöll. Fjórtán kílómetra „líkamsrækt“ í stórkostlegri íslenskri náttúru. Það skaðaði ekki að sólin skein á heiðskírum himni og engin hreyfing var á logninu. Svo tókum  við auðvitað Druslugönguna líka og tjúttuðum á Bræðslunni. Daði Freyr heillaði fleiri en bara unglingsstelpurnar og hljómsveitin Between Mountains var líka frábær en fagmennskan draup af öllum hljómsveitunum. Við skoðuðum lunda í Hafnarhólma, fylgdumst með hvölum í höfninni og syntum þar sjálf í ísköldum sjónum“.
 
Guðrún Sigríður segir að heima fyrir hafi fjölskyldan nýtt blautviðrið til jarðvinnu. „Og svo hellulögðum við einhverja 75 fermetra. Nú er verið að steypa vegg á baklóðinni og þar munum við klára pall og heitan pott áður en frystir í haust. Svo skutumst við núna í sumarlok á Landsmót ungmenna í Þorlákshöfn með Ásdísi Hjálmrós (14 ára) og Jóa Krissa (11 ára) sem kepptu auðvitað í þjóðaríþrótt Njarðvíkinga, körfubolta“.
 
Tobba alltaf heimsótt á Ljósanótt
 
Ertu með hefðir á Ljósanótt?
„Það sem ég hef gert síðastliðin ár á fimmtudagskvöldinu á Ljósanótt er að fara út að borða á Library Bistro með Buddunum, saumaklúbbnum mínum, og svo tökum við vinkonurnar röltið og skoðum listsýningar. Sá listamaður sem ég vil alls ekki missa af sýningu hjá er hún Tobba, en hún er með Gallery Tobbu á Hafnargötu 18. Ég er mjög hrifin af listinni hennar, sérstaklega þessum stórkostlegu skúlptúrum sem hún gerir. Ég mæli með að allir komi við í Gallerýi Tobbu á Ljósanótt og skoði andstæðurnar í verkunum hennar, húmorinn og fegurðina. Ég bað um listaverk eftir Tobbu í afmælisgjöf í desember síðastliðnum og var ég með ákveðið listaverk í huga sem ég vildi og ég fékk það í afmælisgjöf frá eiginmanninum. Það var þessi risastóra könguló sem nú hangir fyrir ofan svefnherbergi sonar okkar. Sumum finnst köngulóin óhugnanleg en hún er stórfengleg að mínu mati og heyrst hefur að von sé á fjölgun í þeirri fjölskyldunni og bætist litlar köngulór á vegginn hjá okkur. Að lokum langar mig að segja líka frá steinaldarmanninum Einari Ben, en hann er móðurbróðir minn og verður með listsýningu á Hafnargötu 35. Hann málar verk í stein sem eru afar falleg og ég mæli með að sem flestir leggi leið sína þangað“.