Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

  • Menntun er lykill að því að okkur vegni vel sem ferðaþjónustulandi
    Jakob Már Harðarson yfirþjónn. VF-myndir: Hilmar Bragi
  • Menntun er lykill að því að okkur vegni vel sem ferðaþjónustulandi
Laugardagur 31. október 2015 kl. 15:14

Menntun er lykill að því að okkur vegni vel sem ferðaþjónustulandi

– Keflvíkingurinn Jakob Már Harðarson er einn af þremur yfirþjónum á veitingstaðnum Lava í Bláa Lóninu

Jakob Már Harðarson er borinn og barnfæddur Keflvíkingur. Hann ákvað árið 1985 að læra til þjóns. Í dag starfar hann sem yfirþjónn á veitingastaðnum Lava í Bláa lóninu. Í þeim öra vexti sem nú er í ferðaþjónustunni hvetur Jakob ungt fólk til að skoða möguleikann á því að fara í nám sem nýtist í t.a.m. þjónustu við ferðamenn. Hann segir þjónastarfið jafn heillandi í dag og fyrir 30 árum þegar hann hóf námið.

Jakob lærði þjóninn á Grillinu á Hótel Sögu. Hann bætti svo um betur og lærði einnig til matreiðslu á sama stað. Í gegnum árin hefur hann svo sótt sér viðbótarmenntun í starfinu og stundaði m.a. nám við Florida International University í Miami. Þá hefur Jakob samhliða öðrum störfum starfað hjá forsetaembættinu á Bessastöðum sl. tólf ár við matreiðslu og framreiðslu þegar þar eru haldnar móttökur, veislur og kvöldverðarboð.

Hann segir að hjartað hafi alltaf slegið á Suðurnesjum þó svo að hann hafi starfað á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 1985 þegar hann hóf sinn feril í framreiðslu á Hótel Sögu. Það hafi verið í kjölfar samtals sem hann átti í veislu á Glóðinni við Trausta Víglundsson einn af frumkvöðlunum í faginu. Þar hafi hann heillast af starfinu. Jakob gekk til liðs við Bláa Lónið síðastliðið vor.
„Mér finnst dásamlegt að fá að taka þátt í þessu ævintýri sem er að gerast hérna í Bláa Lóninu. Sú framþróun sem hér á sér stað er eitt það flottasta í greininni í dag á öllum sviðum, ekki bara í veitingageiranum“. Jakob segir að ekki sé mikil starfsmannavelta á veitingasviðinu  hjá Bláa Lóninu sem sé merki um að fólki líki vel við starfið sitt og líði vel á vinnustað.

Fjölmargir nema fagið í Bláa Lóninu

Hjá Bláa Lóninu eru fimmtán matreiðslunemar og tíu framreiðslunemar. Hjá Bláa Lóninu starfa 10 matreiðslumenn Einnig starfa átta útlærðir þjónar á veitingastaðnum Lava í Bláa lóninu og þar af eru fjórir meistarar í framreiðslu, allt fólk á besta aldri með mikla starfsreynslu. Nokkrir nemar í þjóninum hjá Bláa Lóninu í dag hófu t.a.m. störf við aðstoð í sal, heilluðust af starfinu og eru nú komnir á samning.

Störfum hjá Bláa lóninu mun fjölga talsvert á næstu misserum þegar nýtt spa upplifunarsvæði og lúxus hótel verða tekin í notkun ásamt  nýjum veitingastað .Störfum mun fjölga um 100 og verða nýju störfin m.a. á sviði þjónustu.

„Í landinu er mikil uppbygging á hótelum og veitingastöðum í tengslum við aukinn ferðamannastraum. Að vera þjónn eða kokkur er spennandi starfsvettvangur sem býður upp á marga fjölbreytta möguleika bæði hér heima og erlendis. Þá eru margir með  fyrrgreinda menntun að stýra fínum hótelum og veitingastöðum í dag,“ segir Jakob og bætir við:

„Við vitum það sjálf þegar við erum að ferðast um heiminn að það sem við viljum er að gista á góðum stað, fá gott viðmót og góðan mat. Þess vegna þurfum við að mennta fólk í þessi störf. Þetta er lykillinn að því að okkur muni vegna vel sem ferðaþjónustulandi, að við menntum fólkið okkar til ferðaþjónustustarfa og þessara sérhæfðu starfa sem þarf í greinina. Við þurfum fleiri matreiðslumenn, framleiðslufólk og annað fagfólk sem sérhæfir sig t.d. í leiðsögn og afþreyingu.  

Bóklega námið fer fram í Menntaskólanum í Kópavogi. Samhliða því þarf námssamning við meistara og vinnustað.  Þá er gaman að nefna að Cesar Ritz hótelstjórnunarnám er í boði hér á landi við Háskólann í Reykjavík. Það nám er að hluta til hérlendis og svo starfstengt að hluta í Sviss. „Það eru því möguleikar hér heima til að að mennta sig í greininni. Það má einnig byrja á því að mennta sig í faggreinunum hér heima og sækja sér  síðan aukna menntun erlendis í framhaldinu,“ segir Jakob.



Gríðarleg tækifæri

Jakob segir tækifærin vera gríðarleg þegar kemur að ferðaþjónustunni. „Allar spár gera ráð fyrir áframhaldandi fjölgun ferðamanna til Íslands, þannig að vöxturinn er til staðar en ég tel að við þurfum að halda vel á spilunum til þess að við viðhöldum vextinum og gerum þá gesti sem sækja okkur heim  ánægða með heimsóknina til Íslands. Það er lykillinn að því að okkur vegni vel í framhaldinu. Ánægður gestur er besta auglýsingin sem við fáum.

Greinin þarf að vera aðlaðandi fyrir ungt fólk sem er að hefja sinn starfsferil og fyrir ungt fólk sem er að fara í nám. Vöxturinn og tækifærin eru í ferðaþjónustunni. Það þarf að gera þessi störf aðlaðandi en það hefur vantað uppá að þau séu metin að verðleikum.  Mín skoðun er sú að tækifærin eru til að staðar fyrir góð fyrirtæki til að blómstra og tryggja starfsfólki sínu gott starfsumhverfi og framtíðarmöguleika á þessum spennandi vettvangi.

Hjá Bláa Lóninu hefur verið lögð mikil áhersla á mannauðsmál og að hugsa vel um starfsfólkið. Stærstur hluti starfsfólksins í veitingaþjónustu Bláa Lónsins kemur af Suðurnesjum en einnig af höfuðborgarsvæðinu. Boðið er uppá sætaferðir fyrir starfsfólk bæði úr Reykjanesbæ og af höfuðborgarsvæðinu og það skiptir máli en margir setja fyrir sig að þurfa að aka sjálfir langa leið til vinnu.

Jakob segir að það hafi vakið athygli hans þegar hann kom til starfa hjá Bláa lóninu hversu mikið af flottu starfsfólki komi af Suðurnesjasvæðinu, og það sé sérstaklega ánægjulegt hversu margir starfsmenn komi úr Grindavík. Það má í þessu samhengi segja að Bláa Lónið er í dag stærsti vinnuveitandinn í Grindavík og orðinn fjölmennari vinnustaður en stærstu sjávarútvegsfyrirtækin í bænum.

Spurður um vinnufyrirkomulag segir Jakob að yfirleitt er um að ræða vaktavinnu á svokölluðu 2-2-3 fyrirkomulagi. Það þýðir að þú ert að vinna tvo daga aðra vikuna og fimm daga hina vikuna. Það þýðir frí aðra hverja helgi og vaktin er ca 12 tímar á dag. Þú vinnur því 15 daga í mánuði. Sumir vinna aðeins dagvinnu, þannig að vinnutíminn er breytilegur. „Hér í Bláa Lóninu er lítið um næturbrölt,  en veitingastaðurinn Lava er opinn allan daginn og við lokum tiltölulega snemma á kvöldin. Hádegis- og kvöldmatartímar eru hinsvegar stórir og ef það eru veislur þá erum við stundum frameftir“.

Mannleg samskipti skemmtileg

Starf þjónsins snýst mikið um mannleg samskipti og Jakob er oft spurður hvort honum þyki skemmtilegra að sinna framreiðslu eða matreiðslu. Hann segir að bæði störfin séu mjög skemmtileg en hann segist finna sjálfan sig betur í þjónustunni. „Mér finnst skemmtilegra að vera í tengslum við gestina í salnum, “ segir Jakob Már brosandi um leið og hann stendur upp til að taka á móti gestum í hádegisverð.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024