Mannlíf

Langar ekkert heim til Íslands
Ingibjörg Anna Artursdóttir
Thelma Hrund Hermannsdóttir
Thelma Hrund Hermannsdóttir skrifar
mánudaginn 5. september 2022 kl. 10:00

Langar ekkert heim til Íslands

„Það er alveg æðislegt að búa í Kaupmannahöfn. Ég vildi prófa eitthvað annað en að fara í háskóla á Íslandi og fara svolítið vel út fyrir þægindarammann,“ segir Sandgerðingurinn Ingibjörg Anna Artursdóttir en hún flutti til Danmerkur á síðasta ári til að stunda nám í byggingafræði í Københavns Erhversakademi.

Námið sem Ingibjörg stundar heitir Architectural Technology And Construction Management, eða byggingafræði á íslensku. Hún segir námið vera skemmtilegt en krefjandi. „Kennsluhættirnir eru öðruvísi en maður er vanur. Það eru engin skrifleg próf en í staðin höldum við kynningar, bæði hópa og einstaklings. Bekkurinn minn er mjög náinn og við erum dugleg að deila innblástri og hjálpast að,“ segir Ingibjörg. 

Ingibjörg byrjaði að skoða nám á Íslandi en hún segist hafa þráð að flytja til Danmerkur. „Ég byrjaði að leita á netinu eftir skólum og fann þá KEA sem er í Kaupmannahöfn. Á vefsíðunni hjá þeim sá ég þetta væri síðasta önnin þar sem námið væri kennt á ensku. Það var þá sem ég fór ítarlega að skoða hvað þau hefðu upp á að bjóða og sá nám sem kallast Architectural Technology And Construction Management,“ segir Ingibjörg. Hún hafði alltaf verið forvitin um byggingar en aldrei dottið í hug að fara í nám tengt þeim áhuga. Meðan hún beið eftir svari frá skólanum, um hvort umsóknin hefði verið samþykkt, fór hún á opið hús hjá skólanum í Kaupmannahöfn. „Eftir það varð ég ótrúlega peppuð í þetta og biðin varð í raun ennþá erfiðari. Þegar ég fékk síðan svar frá skólanum að ég hafi komist inn í námið voru ekki nema fjórar vikur þar til ég flutti út,“ segir hún. Ingibjörg segir danska sumarið standa upp úr á því ári sem hún hefur verið búsett í Danmörku. „Það munar svo miklu að fá gott veður á sumrin. Ég og vinir mínir erum dugleg að hjóla á bryggjuna eða í garðinn með gott nesti og sitja bara og spjalla,“ segir hún.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024
Ingibjörg ásamt vinkonum sínum

Gott skref út fyrir þægindarammann

Ingibjörg segir það viðbrigði að flytja ein til annars lands en það sé gott skref út fyrir þægindarammann. „Það er alveg æðislegt að búa í Kaupmannahöfn. Ég vildi prófa eitthvað annað en að fara í háskóla á Íslandi og fara svolítið vel út fyrir þægindarammann. Ég á einhvern vegin mun auðveldara með að vera ég sjálf hérna og pæli ekki jafn mikið í hvað öðru fólki finnst,“ segir hún. „Það sem mér hefur fundist erfiðast er að maður þekkir ekki til og getur ekki reddað hlutunum eins auðveldlega og á Íslandi en sem betur fer á ég góða vini að sem eru alltaf til í að hjálpa,“ segir hún jafnframt. Sund, íslenska vatnið og að keyra á milli staða er meðal þess sem Ingibjörg saknar mest við Ísland. „Ég sakna íslenska vatnsins svakalega, ég sakna þess líka að fara í sund eftir æfingar og keyra á milli staða, ótrúlegt en satt. Það jafnast bara ekkert á við að keyra með góða tónlist. Svo sakna ég auðvitað fjölskyldunnar og vinanna mest,“ segir hún.

Mynd úr einkasafni Ingibjargar

Betra veður, fleiri tækifæri og betra kerfi

Aðspurð hvert hún stefnir eftir nám segist hún ekki vera viss. Hún segir þó mikla eftirspurn vera eftir fólki sem hefur lokið námið sem hún er í og því „ætti ekki að vera vandamál að finna vinnu“. Þá segist hún vera opin fyrir því að bæta við sig meiri menntun að námi loknu. „Það er ekkert ákveðið eins og er,“ segir Ingibjörg. En sér hún fyrir sér að eiga heima í Danmörku í framtíðinni? „Já, eins og er þá væri ég mikið til í að búa í Danmörku í framtíðinni. Hér er betra veður, fleiri tækifæri og betra kerfi fyrir fjölskyldur og námsmenn m.a. Mig langar ekkert að fara heim til Íslands eins og er, mamma er ekkert voða sátt við það en hún er dugleg að heimsækja mig,“ segir Ingibjörg.