Flugger
Flugger

Mannlíf

Korda Samfónía heldur tónleika í Hörpu
Fimmtudagur 18. maí 2023 kl. 06:47

Korda Samfónía heldur tónleika í Hörpu

Tónlistarfólk frá Suðurnesjum í burðarhlutverkum.

Korda Samfónía er óhefðbundnasta hljómsveit landsins og mun mánudagskvöldið 22. maí halda sína árlegu tónleika.  Það verða fluttar glænýjar tónsmíðar, auk laga frá fyrri starfsárum. Tónlistarfólk frá Suðurnesjum er í burðarhlutverkum og stjórnandinn er Keflvíkingurinn Sigrún Sævarsdóttir-Griffiths. 

Sævar Helgi Jóhannsson er aðstoðarstjórnandi. Þórarinn Örn Þórarinsson Lærlingur MetamorPhonics og fyrsta árs nemi í Skapandi Tónlistarmiðlun í Listaháskóla Íslands. Ólöf Gunnarsdóttir, meðlimur í Vox Felix sem syngur nokkur sóló á tónleikunum. Svo eru fleiri sem eiga rætur sínar að rekja til Suðurnesjanna í hljómsveitinni.

Optical Studio - 7. júlí
Optical Studio - 7. júlí

Aðeins eru tæp tvö ár liðin frá stofnun hennar, en þó hefur hljómsveitin gefið út sína fyrstu plötu (Ég sé þig- Spotify) , heimildarþáttur um hana og meðlimi hennar verið sýndur á RUV (Ég sé þig- RÚV) og debut tónleikar hljómsveitarinnar (Eldborg 21. Maí 2021) verið tilnefndir til Íslensku Tónlistarverðlaunanna sem viðburður ársins.

Til þess að fólki vegni vel í lífinu, þarf það að upplifa sig sem gjaldgenga, virka meðlimi samfélagsins og að á það sé hlustað.  Korda einkennist af jafnrétti, vingjarnlegu, stuðningsríku og skapandi andrúmslofti, þar sem fólk vinnur saman, skapar, lærir, styrkist og vex.  Umhverfið er öruggt og fólk er hvatt til þess að taka áhættu, prófa eitthvað nýtt og víkka þægindarammann.  Mikill metnaður er lagður í listrænt gildi tónlistarinnar, sem gerir þátttakendum kleift að vera stolt yfir því sem þau áorkuðu og vita að þeirra list eigi erindi til áhorfenda.

Meðlimir Kordu Samfóníu koma frá hinum ýmsu áttum úr þjóðfélaginu.  Þar er að finna sprenglært og þaulreynt starfandi tónlistarfólk sem og nemendur úr Listaháskóla Íslands, en einnig fólk sem orðið hefur fyrir áföllum og er mislangt komið í endurhæfingaferli, sem stutt er af starfsendurhæfingastöðvum á Suðvesturhorninu.

Korda Samfónía flytur eingöngu frumsamda tónlist en sú tónlist er öll samin af meðlimum hljómsveitarinnar í sameiningu og strangar reglur eru um að enginn komi með neitt sem áður hefur verið undirbúið.  Öll tónlistin verður til þegar hljómsveitin kemur saman.  Það eitt og sér getur talist óhefðbundið, en þegar litið er til þess að hljómsveitina skipa 35 manns, verður það að teljast mjög sérstakt. Að auki hittist hljómsveitin eingöngu í ellefu daga ár hvert og á fyrstu tíu dögunum verður öll þeirra tónlist til og á þeim ellefta eru haldnir tónleikar!

Hljóðfæraskipan hljómsveitarinnar er mjög fjölbreytt, líkt og bakgrunnur hljómsveitarmeðlima, en þar er að finna öfluga rhythmasveit með tveimur trommusettum, slagverksleikurum, tveimur bassaleikurum, fjórum gítarleikurum, fimm hljómborðsleikurum og tölvu, en einnig er symfónísk sveit skipuð strengjum og blásurum, auk tólf manna kór.

Verkefnið er runnið undan rifjum MetamorPhonics, samfélagsmiðuðu fyrirtæki sem Sigrún Sævarsdóttir-Griffiths tónlistarkona stýrir í London. Aðstandendur og samstarfsaðilar verkefnisins eru starfsendurhæfingar víðsvegar um landið, Tónlistarborgin Reykjavík, Listaháskóli Íslands, Harpa ráðstefnu og tónleikahús.

Miðasala er á tix.is.