Mannlíf

Hrekkjavökuhátíð í Suðurnesjabæ
Fimmtudagur 29. október 2020 kl. 14:09

Hrekkjavökuhátíð í Suðurnesjabæ

Haldið verður upp á hrekkjavökuna í Suðurnesjabæ og allir íbúar hvattir til þess að taka þátt. „Hátíðin mun bera þess merki að við lifum á skrýtnum tímum og munum við haga allri hegðun í samræmi við tilmæli sóttvarnalæknis og almannavarna,“ segir í tilkynningu frá Suðurnesjabæ.

Skólarnir í Suðurnesjabæ, foreldrar, bókasöfn, bæjarskrifstofur, nemendaráðin og félagsmiðstöðvar hafa m.a. tekið sig saman og ætla í sameiningu að bjóða upp á fjölbreytta dagskrá. Í stað þess að ganga hús úr húsi eru íbúar hvattir til þess að taka þátt í sínu eigin bingói, kíkja á bókasafnið, fara í hrekkjavökugöngutúra og fleira skemmtilegt sem ekki krefst snertingar eða mikillar nálægðar. Þá eru fjölskyldur einnig hvattar til þess að gera sér glaðan dag saman.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Á vef Suðurnesjabæjar, www.sudurnesjabaer.is, má nálgast tengla á Bingóspjöld og -Kahoot-leiki sem hægt er að grípa til við þetta tækifæri.

Föstudagurinn 30. október

Félagsmiðstöðin Elding – draugahús – fylgist með á Facebook-síðu Eldingar

Félagsmiðstöðin Skýjaborg – draugahús – fylgist með á Facebook-síðu Skýjaborgar

Bókasafn Suðurnesjabæjar í Sandgerði

Sögustund laugardaginn 31. október klukkan 11:00 og klukkan 13:00 – nánar á Facebook-síðu safnsins.

Minnt er á samkeppnina um draugasögur.

Laugardagurinn 31. október
– Hrekkjavaka

Íbúar eru hvattir til að klæða sig upp, setja ljós út í glugga eða fyrir utan hús og skreyta. Nánar um dagskrá laugardagsins á vef Suðurnesjabæjar en tekið verður mið af sóttvarnaaðgerðum og í samráði við aðgerðastjórn Suðurnesjabæjar.

Fróðleikur um Hrekkjavökuhátíðina

Í mörgum evrópskum löndum, þar á meðal á Íslandi og hinum Norðurlöndunum auk keltneskra landa, var árinu skipt í tvær árstíðir, vetur og sumar, í stað fjögurra eins og við gerum í dag. Menn töldu tímann í vetrum og nóttum fremur en í árum og dögum. Veturinn var eins og nóttin og var talinn koma fyrst og þar sem mánaðamót október og nóvember er tími vetrarbyrjunar var það einnig tími nýárs. Á þessum tíma tóku kuldinn og myrkrið við, jörðin sofnaði og dauðinn ríkti. Á Íslandi til forna var í lok október haldin hátíð sem kölluð var veturnætur og þá var haldið dísablót (disting). Í norðurhluta Skotlands og á Írlandi er á þessum tíma, sem nú er að ganga í garð, enn haldin hátíð sem á gelísku heitir Samhain, hátíð hinna dauðu. Í seinni tíð hefur hún fengið heitið Halloween. Nánar er hægt að lesa sig til um Hrekkjavökuna og aðra siði á Vísindavefnum.