Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Mannlíf

Fylgdist með byggingu Ja ja Ding Dong á Húsavík
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 31. júlí 2020 kl. 11:29

Fylgdist með byggingu Ja ja Ding Dong á Húsavík

Sighvatur Jónsson lenti í mikilli samkeppni um timbur í pallasmíði sumarsins.

Sumarið hefur leikið við okkur. Við höfum nýtt hluta þess í framkvæmdir úti við. Það er góð samstaða hér í hverfinu okkar og við nágrannarnir fórum þá íslensku leið á þessum tíma að fara í smíði á skjólvegg. Það reyndist á köflum krefjandi vegna mikillar samkeppni um timbur á Íslandi þessi misserin en vegna þessa verkefnis er það ofarlega í huga mér hversu lítið rigndi í júní. Svo höfum við fjölskyldan aðeins ferðast innanlands og þá stundum í tengslum við fótboltaiðkun miðlungsins sem leikur með 3. flokki Njarðvíkur,“ segir Sighvatur Jónsson, fjölmiðlamaður. Hann og fjölskylda hans eru nýir Suðurnesjamenn en þau fluttu fyrir tveimur árum síðan frá Vestmannaeyjum og una hag sínum vel í Innri-Njarðvík þar sem þau búa.

– Hvaða staðir á Íslandi hafa heillað þig?

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Við skutumst sem dæmi norður til Húsavíkur þegar Njarðvíkurstrákarnir áttu leik við Völsung. Þangað höfðum við ekki komið áður þó svo að við höfum ferðast eitthvað um Norðurland. Það var sérstaklega gaman að koma til Húsavíkur á þeim tíma þegar umræðan um Eurovision-mynd Will Farrels og félaga var sem mest. Við fylgdumst til dæmis með smíði Ja ja Ding Dong-barsins við hótelið þar sem við gistum en sá bar var tekinn í notkun stuttu síðar. Á ferðalagi okkar um Norðurland keyrðum við hluta af hinum svokallaða Demantshring, við skoðuðum meðal annars Ásbyrgi, Dettifoss og Dimmuborgir. Ég man eftir því að hafa komið í Ásbyrgi á yngri árum, það vakti athyli mína hversu mikill gróður er þar, minnti mig einna helst á dönsku skógana frá því að við bjuggum þar fyrir um áratug.

– Hvað ætlar þú að gera um verslunarmannahelgina?

Við hjónin erum frá Eyjum og höfum fylgst grannt með umræðunni um Þjóðhátíð, sem engin verður nú vegna heimsfaraldurs Covid-veirunnar. Persónulega finnst mér þetta mjög sérstakt í ljósi þess að ég og félagi minn, Skapti Örn Ólafsson, framleiddum heimildarmyndina Fólkið í Dalnum sem var frumsýnd fyrir ári. Ég hef verið að vinna í textun myndarinnar á íslensku og ensku síðustu vikur og sé hversu mikilvægt það var að við náðum að skrásetja þessa merkilegu sögu hátíðarinnar í fyrra, vitandi það ekki að engin yrði hátíðin í ár. Myndin var birt á VOD-leigum símafyrirtækjanna fyrr á árinu og má búast við að margir noti tækifærið og horfi á hana nú. Annars verð ég að vinna á Bylgjunni um verslunarmannahelgina en við fjölskyldan ætlum þó að nota hluta helgarinnar til að gera eitthvað saman – en stillum ferðalögum í hóf.

– Hver er eftirminnilegasta verslunarmannahelgin þín?

Þessu er auðsvarað. Þrátt fyrir að hafa myndað Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum í mörg ár og fjallað um hana sem fréttamaður og við gerð heimildarmyndar um hátíðina er árið 1992 mjög eftirminnilegt. Á þeirri þjóðhátíð kynntumst við Dóra Hanna, eiginkona mín, og ég segi stundum í gríni að við séum svo týpískt Eyjafólk að við höfum kynnst á hátíðinni. Reyndin er nú sú að margir Íslendingar hafa þessa sömu sögu að segja. Ef ég þarf að auka við rómantíkina í sögunni þá bæti ég því við að ég hafi beðið Dóru Hönnu undir dynjandi flugeldasýningu í Herjólfsdal nokkrum árum síðar. Við giftum okkur hins vegar í kirkju – en ekki í Dalnum,“ segir nýi Njarðvíkingurinn Sighvatur.

Dóra Hanna Sigmarsdóttir, Sighvatur Jónsson, Heiðrún Björk Sigmarsdóttir og Vilberg Eiríksson í Ásbyrgi á köldum sumardegi.

Frændsystkinin Arnar Gauti Vilbergsson, Embla Dís Sighvatsdóttir, Aron Ingi Vilbergsson og Elmar Elí Sighvatsson í Dimmuborgum.