Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Mannlíf

Fjölbrautaskólinn þátttakandi í alþjóðlegu menningarverkefni
Hópurinn við húsakynni Fjölbrautaskóla Suðurnesja.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
mánudaginn 7. nóvember 2022 kl. 09:41

Fjölbrautaskólinn þátttakandi í alþjóðlegu menningarverkefni

Fjölbrautaskóli Suðurnesja er þátttakandi í Erasmus+ verkefninu Cultural Heritage in a European Context en verkefnið er samstarf skóla frá Finnlandi, Ungverjalandi og Spáni. Markmið verkefnisins er að efla menningarlæsi nemenda og auka víðsýni og umburðarlyndi gagnvart öðrum menningarheimum. Nemendur fræðast um siði, menningu og markverða staði í samstarfslöndunum. Þau þjálfa einnig tungumála- og samskiptafærni auk þess sem þau þjálfast í tölvunotkun og samvinnu.

Hugmyndin að samstarfinu spratt upp úr fyrra samstarfi við Ungverjaland og má líta á verkefnið sem nokkurs konar framhald af National Prides in a European Context verkefninu sem var í gangi 2018–2021.

Hvert land tekur að sér að vera gestgjafi einu sinni á tímabilinu sem verkefnið stendur og skipuleggur þá dagskrá í eina viku þar sem gestirnir fá að kynnast menningu gestgjafanna og markverðum stöðum í nánasta umhverfi. Fyrir hverja heimsókn vinna nemendur myndbönd um ýmsa þætti sem tengjast menningu sinni eða tungumáli. Í lok hverrar ferðar vinna nemendur rafrænt tímarit sem verður aðgengilegt á heimasíðum skólanna. Eftir hverja heimsókn heldur hver skóli menningardaga til heiðurs því landi sem heimsótt var.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Á vorönn 2022 voru farnar tvær ferðir, önnur til Spánar en hin til Finnlands. Fimm nemendur ásamt tveimur kennurum fóru í hvora ferð. Á vorönn 2023 munu svo fimm nemendur í viðbót og tveir kennarar ferðast til Ungverjalands.

Nýverið var komið að okkur að vera gestgjafar í verkefninu og komu hingað hópar nemenda frá Spáni, Finnlandi og Ungverjalandi ásamt kennurum sínum. Í allt voru það sautján nemendur og níu kennarar sem komu hingað í heimsókn. Nemendur gistu hjá fjölskyldum nemenda sem taka þátt í verkefninu og fengu þannig tækifæri til að kynnast nánar heimilislífi hér á landi.

Hópurinn fór upp að gosstöðvum við Fagradalsfjall.

Dagarnir voru viðburðarríkir og margt var skoðað. Meðal annars fór hópurinn á Rokksafnið, í Víkingaheima og ferðaðist um helstu náttúruperlur Reykjaness. Förinni var einnig heitið að skoða náttúruperlur á Suðurlandi eins og Þingvelli, Gullfoss, Geysi og komið var við á orkusýningunni í Ljósafossvirkjun. Einn dagur var nýttur í að kynnast höfuðborginni og þá var m.a. farið í Flyover Iceland, Perluna og komið við í hesthúsum þar sem hægt var að prófa að fara aðeins á bak. Dagskránni lauk með glæsilegu lokahófi á sal FS þar sem snæddur var ljúffengur matur, nemendur sýndu skemmtiatriði og veitt voru viðurkenningarskjöl fyrir þátttöku.