Mannlíf

Erlendis þykir sjálfsagðara að meta menntun til launa
Laugardagur 18. janúar 2020 kl. 07:34

Erlendis þykir sjálfsagðara að meta menntun til launa

Dagný Maggýjar ræddi við Keflvíkinginn ÖlmuDís Kristinsdóttur, doktor í safnafræði

Keflvíkingurinn AlmaDís Kristinsdóttir lauk í haust doktorsvörn sinni í safnafræði við Háskóla Íslands og náði þar með langþráðu markmiði og segist nú vera á hægri leið niður  það stóra fjall.  Hún er dóttir Kidda í Dropanum, yngst fjögurra systkina og eina stelpan – sem oft var pirrandi. Henni datt aldrei í hug að hún myndi feta akademískar brautir þar sem fyrirmyndirnar í þá veruna voru fáar og segir doktorstitilinn vera afrek í seiglu en heldur ópraktískan.

Leiðir okkar ÖlmuDísar lágu saman fyrir þó nokkuð löngu þegar ég starfaði sem blaðamaður á Víkurfréttum og tók viðtal við hana þar sem hún starfaði sem hönnuður hjá tæknifyrirtækinu Quark Inc. í Bandaríkjunum. Þá hafði hún nýlokið námi í grafískri hönnun en leiðir hennar í lífinu hafa legið inn á fjölmörg lista- og menningarsöfn þar sem hún hefur starfað um áratugaskeið sem hönnuður, safnkennari og safnstjóri. Við áttum sameiginleg tímamót á árinu og fögnuðum hálfri öld, það er því óhætt að segja að árið 2019 hafi verið ár tímamóta í lífi hennar.

„Ef við ímyndum okkur að markmið sé eins og fjall þá er ég á hægri niðurleið núna, ekki í neikvæðri merkingu heldur einfaldlega að ljúka þessu langa og stranga ferli af eins mikilli skynsemi og mér er unnt. Ég er sumsé hægt og sígandi að komast niður á jörðina eftir þessa stórkostlegu reynslu. Mér skilst á samferðafólki mínu sem hefur fetað þessa leið að það geti tekið dágóðan tíma að ná áttum eftir allt þetta álag og streð en það var hverrar mínútu virði.“

AlmaDís var þessa daga sem viðtalið var tekið, á kafi í jólafræðslu Árbæjarsafns ásamt samstarfsfólki í Borgarsögusafni Reykjavíkur. Þess á milli undirbjó hún flutninga og var því voða mikið að taka til heima hjá sér að eigin sögn.

„Við tökum á móti um 2500 börnum nokkrum vikum fyrir jól og útbúum fjölskyldusmiðju þar sem fólk getur spreytt sig á að flétta saman jólahjörtu að dönskum sið. Við vorum einnig að leggja lokahönd á styrkumsóknir sem tengjast starfinu á næsta ári og margt spennandi er í bígerð. Borgarsögusafn er frekar stórt safn á íslenskan mælikvarða, eitt safn á fimm stöðum með rúmlega fjörutíu starfsmenn. Ég er með skrifstofu í Árbæjarsafni núna en flakka dálítið á milli. Hinir staðirnir eru Landnámssýningin í Aðalstræti, Ljósmyndasafn Reykjavíkur, Sjóminjasafnið Granda og Viðey. Við erum sumsé fimm í fræðsluteymi safnsins og ég hef leitt starf þessa teymis sem verkefnastjóri safnfræðslu frá árinu 2016. Ef ég set á mig kennarahattinn þá er ég að fara yfir lokaverkefni á námskeiði sem ég hef kennt annað slagið í nokkur ár í safnafræði við félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild Háskóla Íslands og heitir Söfn sem námsvettvangur. Námskeiðið heldur mér á tánum faglega og mér finnst bráðnauðsynlegt að tengja saman fræði og praktík.“

Doktorsvörn ÖlmuDísar fór fram þann 20. september síðastliðinn en verkefnð nefnist: Toward Sustainable Museum Education Practices: A Critical and Reflective Inquiry into the Professional Conduct of Museum Educators in Iceland eða Horft til framtíðar í fræðslumálum safna: Greining á faglegri nálgun í íslensku safnfræðslustarfi.

Hvernig var að verja, er þetta ekki svolítið sérstakt fyrirbæri?

„Þetta var stór dagur og algerlega magnað að fá tækifæri til að kynna og verja eigið doktorsverkefni. Mér var mikið í mun að njóta dagsins og þurfti því að æfa mig töluvert. Að tala í pontu er ekki mitt uppáhald því þrátt fyrir áralanga reynslu við að tala fyrir framan fólk þá er ég feimin í grunninn en þetta tókst allt glimrandi vel. Athöfnin fór fram á ensku í hátíðarsal Háskóla Íslands. Fyrst kynnti ég rannsóknina mína og þurfti svo að svara spurningum frá tveimur utanaðkomandi andmælendum sem höfðu samþykkt ritgerðina en vildu fá útskýringar á ýmsum þáttum fyrir framan áheyrendur. Annar andmælandinn er dálítið þekkt nafn í fræðslumálum safna, dr. Lynn Dierking, og það var frábært að hitta hana í eigin persónu ásamt manninum hennar, dr. John Falk. Ég bauð þeim að sjálfsögðu í partýið um kvöldið,“ segir AlmaDís og hlær.

Leyfði hjartanu að ráða för

Hvað kveikti í þér löngun til að verða doktor?

„Ég fór ekki beint hefðbundna leið í mínu námsbrölti en það má segja að ég hafi leyft hjartanu að ráða för. Fyrst lærði ég hönnun hjá Massachusetts College of Art í Boston, fór síðan í menntunarfræði og er nú nýdoktor í safnafræði og ótrúlega stolt af sjálfri mér. Ég hef lengi unnið við fræðslumál á söfnum og í því starfi sameina ég þessi þrjú fræðasvið; hönnun, kennslu og safnafræði. Doktorsnám snýst að miklu leyti um að stunda rannsóknir og mig langaði að leggja mitt af mörkum í þeim efnum.“

Fyrsta safnastarf ÖlmuDísar var við Listasafnið í Denver (Denver Art Museum) í Koloradófylki í Bandaríkjunum.

„Ég var ráðin inn sem yfirhönnuður (Senior Designer) og vann náið með fræðsludeild safnsins. Seinna þegar ég fór að læra safnafræði var ég oft að rekast á kunnugleg nöfn samstarfsfólks í hinum ýmsu fræðigreinum sem kom mér skemmtilega á óvart. Ég var sumsé að vinna með helstu sérfræðingum í fræðslumálum safna og hafði ekki hugmynd um það fyrr en löngu síðar.

Í grunnnáminu mínu í Boston fór ég mikið á söfn enda skólinn minn staðsettur við hliðina á Isabella Steward Gardner safninu sem er algjör perla og stutt frá MFA listasafninu (Museum of Fine Arts).“

Eftir tíu ára dvöl í Bandaríkjunum flutti AlmaDís heim með fyrrum eiginmanni sínum og tveimur börnum sem þá voru eins árs og fimm ára. Fjölskyldan flutti til Akureyrar og þar starfaði hún við Listasafnið á Akureyri og gerði tvær rannsóknir í meistaranámi í menntunarfræðum.

„Önnur snéri að samstarfi menningarstofnanna um sumarlestur fyrir krakka. Hin snéri að fjölskyldum sem safngestum og þar með var ekki aftur snúið. Árið 2006 bauðst síðan draumastarfið í Listasafni Reykjavíkur þar sem ég sá um fræðslumál safnsins ásamt öðru góðu fólki til 2012. Eftir hrun var mikil óvissa í gangi svo ég ákvað ég að bæta aðeins við mig í námi og skráði mig í safnafræði við Háskóla Íslands sem var þá nýtt framboð innan félagsvísinda og kláraði 30 eininga diplómanám árið 2010. Mér fannst eitthvað svo kjánalegt að gera aðra rannsókn á meistarastigi svo ég fór fljótlega að íhuga doktorsnám, sérstaklega þegar mér varð ljóst hversu lítið íslenskt safnastarf hefur verið rannsakað þrátt fyrir að fyrstu söfn landsins hafi verið stofnuð á 19. öld, “ segir AlmaDís og bætir við að Þjóðminjasafn Íslands hafi verið stofnað árið 1863.

Sagði upp draumastarfinu

Að sögn ÖlmuDísar var námið dálítið skrykkjótt í fyrstu.

„Ég þurfti stanslaust að leita leiða til að láta dæmið hreinlega ganga upp og var alltaf í vinnu með námi sem ég mæli ekki með. Ég fékk nokkra styrki sem hjálpuðu mér við að ná endum saman en mun oftar var beiðni um styrk hafnað. Þessi staða þýddi alls konar fórnir og tilraunastarfsemi. Ég sagði t.d. upp draumastarfinu í Listasafni Reykjavíkur og flutti í Stykkishólm og stýrði þar Byggðasafni Snæfellinga og Hnappdæla í Norska húsinu í rúm tvö ár. Á tímabili réði ég mig í vaktavinnu við sýningagæslu í Safnahúsinu við Hverfisgötu til að geta skrifað á milli vakta. Starfið reyndist mjög krefjandi með alls konar óvæntum flækjum en með góðu samstarfi við Sigurjón tókst mér að nýta reynsluna í doktorsverkefnið á uppbyggilegan hátt. Ég tók hluta námsins í Hollandi 2016 sem var gríðarlega gjöfull og góður tími. Ég fór greinaleiðina í náminu þ.e.a.s. skrifaði fjórar vísindagreinar og þrjár af þeim eru birtar nú þegar í erlendum tímaritum; Museum Management and Curatorship 2017, Museum & Society 2018 og Nordisk Museologi 2019 og sú síðasta er í birtingaferli.“

Ástríða - ekki peningarnir

Hvað gefur doktorsnafnbótin þér?

„Þetta er óskaplega óhagnýtt allt saman hér á landi og gefur mér í raun voða lítið annað en formlega viðurkenningu á því að ég geti stundað rannsóknir, skrifað vísindagreinar og kennt meistaranemum. Erlendis þykir sjálfsagðara að meta menntun til launa en við erum ekki enn komin þangað. Það var því enginn fjárhagslegur hvati að baki doktorsnáminu, aðeins ástríða.

Persónulega er þetta afrek í seiglu. Satt að segja datt mér aldrei í hug að ég myndi yfirleitt fara í akademískt háskólanám. Það eru ekki margar fyrirmyndir í mínu lífi sem hafa farið þessa leið en áhuginn var til staðar og hvatningin kom úr ýmsum áttum þannig að ég fór að trúa því sjálf að ég ætti erindi,“ segir AlmaDís og útilokar ekki að hún muni skrifa meira um safnamál.

„Að sjálfsögðu. Til þess er leikurinn gerður. Mig langar til dæmis að skrifa um fræðslumál safna á íslensku og mig dreymir um að hanna slíka bók sjálf. Þá sameina ég aftur hönnun, menntunar- og safnafræði. “

AlmaDís er dóttir hjónanna Kristins Þórs Guðmundssonar og Jónu Gunnarsdóttur heitinnar og yngst fjögurra systkina. Faðir hennar er betur þekktur sem Kiddi í Dropanum en þau hjónin ráku málningavöruverslunina Dropann í áratugi.

„Það var auðvitað dálítið skrýtið að alast upp á heimili þar sem oft var bankað upp á á kvöldin og um helgar og einhver úr fjölskyldunni beðinn um að opna Dropann, því það vantaði einn lítra af málningu. En svona var þetta bara og líklega 90% af viðskiptunum sett í reikning,“ segir AlmaDís og brosir að minningunni.

„Ég var mikið hjá Sigrúnu móðurömmu minni sem bjó að Hafnargötu 39, í hvíta kastalahúsinu, og gott ef heimilisbragurinn minnti ekki aðeins á safn þegar ég hugsa út í það. Þar var röð og regla á öllu og allt á hreinu sem ég kann svo vel að meta. Ég fór voða oft til hennar í hádeginu á leið í tónlistarskólann og fékk að æfa mig á píanóið hans afa í sparistofunni.“

Að sögn ÖlmuDísar voru bræður hennar nokkuð fyrirferðamiklir á heimilinu.

„Gunni bróðir, sem er elstur, var fluttur frekar snemma að heiman svo það voru aðallega Gummi (Guðmundur Már) og Himmi (Hilmar) sem voru heima. Þeir voru ægilegir töffarar eins og pabbi „stælgæi“, orð sem pabbi notar og okkur systkinunum finnst fyndið. Ég, mamma og Gunni vorum aðeins innhverfari manngerðir, held ég, þó ég geti auðvitað aðeins talað fyrir mig sjálfa.“

AlmaDís segir að það hafi haft sína kosti og galla að vera eina stelpan.

„Mér fannst til dæmis rosalega óréttlátt að ég þyrfti að ganga eitthvað meira frá í eldhúsinu en bræður mínir af því að ég var stelpa. Mamma skammtaði til dæmis sjálfri sér og stundum mér minna á diskinn en bræðrum mínum og pabba sem mér fannst glatað en svona var nú hugsunarhátturinn. Kona átti að vera matgrönn, sæt og fín og helst með fullkomið heimili. Það er nú ekki lengra síðan en þetta,“ segir AlmaDís með áherslu.

„Mamma var náttúrlega algjör snillingur í höndunum og hennar vettvangur var heimilið enda húsmæðraskólagengin þessi elska. Ég valdi aðra leið og sagði stundum við hana á meðan hún lifði að ég prjónaði texta á meðan hún prjónaði hverja flíkina á eftir annari. Pabbi varð áttræður í sumar og er hress miðað við aldur og fyrri störf. Hann er góður kall, dugnaðarforkur og elstur af tólf systkinum.“

Lá vel við höggi sem yngsti krakkinn og eina stelpan

Að sögn ÖlmuDísar er nokkuð um fíknvanda í stórfjölskyldunni og oft mikil meðvirkni í gangi á köflum sem erfitt sé að vinda ofan af.

„Það var engu að síður mjög mikil regla á öllu, a.m.k. á yfirborðinu, þegar ég var að alast upp og mikið lagt upp úr því að standa sig vel í öllu sem við tókum okkur fyrir hendur. Ég finn oft fyrir tilhneigingu í átt að frestunar- og fullkomnunaráráttu gagnvart verkefnum og var með mígreni sem krakki sem gefur ákveðna vísbendingu um ástandið á tímabili. Mér hefur samt tekist að hemja þessa þætti nokkuð vel og reyni að vera meðvituð um hvaðan þessir gömlu „draugar“ koma svo hægt sé að kveða þá niður.“

AlmaDís segir að mikið hafi verið hlegið á heimilinu þegar hún var að alast upp og grín gert að öllu mögulegu og ómögulegu.

„Verst þótti mér þegar grínið beindist að mér því auðvitað lá ég vel við höggi sem yngsti krakkinn og eina stelpan. Það herti mig held ég að þurfa að berjast fyrir því að á mig væri hlustað.“

AlmaDís segir ákveðna kaldhæðni vera fólgna í því að hún eigi engar minningar um safnaheimsóknir úr æsku, hvorki með skóla eða fjölskyldu en rannsaki nú safnafræðslu.

„Áhugi á menningu og listum hefur alltaf verið til staðar, hann fann einfaldlega ekki farveg fyrr en í framhaldsskóla og háskóla. Ég man að mamma og pabbi fóru alltaf á bókamarkað í Reykjavík og í mörg ár fékk ég að velja mér bækur. Þar kviknaði áhugi á bókum í það minnsta og svo voru bíóferðirnar á fimmtudögum og sunnudögum í Keflavík ógleymanlegar.“

Gúanólykt og mikið rok

Hvernig var að alast upp í Keflavík?

„Ég hef auðvitað lítinn samanburð en í minningunni var fínt að alast þarna upp. Ég er reyndar fædd á Siglufirði þar sem fjölskyldan var á ferðalagi um verslunarmannahelgi að elta sólina, sem segir kannski sína sögu um veðurfarið, “ segir AlmaDís og brosir. „Ég man eftir gúanólykt sem kom stundum í þvottinn og rosalega miklu roki. Ég man líka eftir kanasjónvarpinu og útvarpinu sem var auðvitað gluggi út í heim sem aðrir höfðu ekki. Það sama má segja um frumkvöðlastarf Sambíóanna í Keflavík, það hlýtur að hafa haft áhrif á samfélagið í heild sinni sem og öll tónlistin sem sprottin er úr þessu umhverfi.“

Þegar ég spyr hana hvernig Keflavík hafi mótað hana segist AlmaDís muna eftir litlu samfélagi sem hafi verið frekar einsleitt og dómhart.

„Það þurftu allir að eiga eins íþróttagalla og Millet-úlpu annars varstu ekki með. Þessi hugsunarháttur er líklega einhverskonar birtingarmynd af óöryggi og tilraun til samstöðu. Okkur finnst þetta kannski fyndið í dag en það skiptir rosalega miklu máli að fjölbreytileikinn fái að blómstra og þá á ég við að fólk fái bara að vera eins og það er án dómhörku. Á hinn bóginn þá man ég líka eftir því að hafa verið alveg týnd þegar ég fór í Verzló sextán ára gömul. Þá var allt í einu ekkert öryggisnet í kringum mig eins og í litlu samfélagi.“

Samkomuhúsið Skjöldur þar sem stórbruni varð þann 30. desember 1935. Þá var verið að halda jólatrésskemmtun og létu tíu manns lífið í brunanum auk þess sem margir brenndust illa. AlmaDís er skírð í höfuð eins fórnarlamba brunans.

Nafns vitjað í draumi

AlmaDís tekur nafn sitt frá örlagaríkum atburði í sögu Keflavíkur sem er bruninn í samkomuhúsinu Skildi árið 1935.

„Já,  mömmu dreymdi nafnið mitt aftur og aftur á meðgöngunni. Hún sá stelpu á síðum hvítum kjól í síendurteknum draumi og alltaf fylgdi þetta nafn. Mamma sagði Sjönu móðursystur sinni frá þessum draumi og hún benti henni á tengslin við brunann. Mamma var fædd 1938 en Beggi, maður Sjönu, kom að björgunarstarfinu. Sveinbjörg Alma (f. 22/12 1925) var ein af þeim síðustu sem bjargað var úr brunanum en hún lést af sárum sínum þremur mánuðum síðar þann 28. mars 1936. Ég er skírð í höfuðið á henni.“

Hvernig myndir þú vilja fjalla um þennan bruna og miðla út frá safnafræðinni?

„Í safnafræði er einmitt fjallað um mikilvægi þess að búa til sýningar um erfið mál og minningar sem söfn í mismunandi samfélögum hafa þurft að glíma við. Bruninn í Skildi er dæmi um slíkt. Þarna varð stórslys, gríðarleg sorg og ákveðin skömm sem fylgdi í kjölfarið vegna þess að aðaldyr hússins opnuðust báðar inn í salinn en ekki út. Í mínum huga þarf hver einasti íbúi í Reykjanesbæ að þekkja þessa sögu. Bókin þín er frábær heimild sem hægt væri að byggja á. Fyrir nokkrum árum vorum við einmitt nokkrar komnar af stað í samstarfi við Listasafn og Byggðasafn Reykjanesbæjar að leita leiða til að fá styrk í slíkt samstarfsverkefni. Síðan urðu mannaskipti og verkefnið fór í dvala en hver veit nema það verði að veruleika einn góðan veðurdag.“

Hvert er draumastarfið? 

„Ég var í draumastarfinu í Listasafninu í Reykjavík en þáverandi safnstjóri var ekki tilbúinn að gefa mér það svigrúm sem ég þurfti til að fara í doktorsnám þrátt fyrir að hluti rannsóknarinnar hafi snúist um safnið. Ég fékk hins vegar mjög mikinn stuðning frá mínum yfirmönnum í Borgarsögusafni Reykjavíkur til að klára og ég er óskaplega þakklát fyrir það. Starfið sem ég er í núna gæti orðið að draumastarfi ef mér tekst að þróa það í þá átt sem fræðin segja til um en það tekur alltaf dálítinn tíma að breyta starfsháttum og sannfæra fólk um nauðsyn þess að breyta. Mér fannst frábært að vera safnstjóri í Stykkishólmi og fá að ráða,“ segir AlmaDís og brosir. „Mér finnst líka mjög skemmtilegt að kenna og það á bæði við um formlega skólakerfið og það óformlega eins og á söfnum. Svo er það þessi hönnunarhugsun sem fylgir mér í öllu sem ég geri. Hún gengur út á að prófa sig áfram þar til kona finnur lausnir. Síðan þarf að horfa raunsætt á það hvort lausnirnar séu að virka. Ef ekki, þá byrjar kona upp á nýtt. Draumastarfið er að fá að blómstra í skapandi umhverfi.“ 

AlmaDís segir margt spennandi framundan í safnaheiminum sem muni taka breytingum á næstunni í kjölfar fjórðu iðnbyltingarinnar og þeirra samfélagsbreytinga sem eru við sjónarröndina.

„Það sem mér finnst mest spennandi í safnaheiminum eru samskipti safna við samfélagið sem þau eru hluti af. Söfn þurfa að eiga erindi og skipta máli í hugum íbúa, ekki vera steindauð geymsluhús heldur lifandi vettvangur fyrir alls konar spennandi samstarf og við megum ekki vera hrædd við tækniþróun. Fjórða iðnbylting felur í sér víðtækar samfélagsbreytingar sem eru söfnum alls ekki óviðkomandi. Söfn hér á landi hafa yfirleitt ekki úr miklu fjármagni að moða sem er ákveðin hindrun varðandi tæknimálin eins og að þróa leiðir sem taka mið af tækniframförum eins og sýndarveruleika og fleira.  Að því sögðu er það áreiðanleikinn, að eitthvað sé „alvöru“ sem skiptir öllu máli í safnastarfi. Fólk kemur á söfn til að sjá raunverulega hluti, t.d. listaverk sem eru einstök, náttúruminjar sem finnast kannski aðeins á vissu svæði eða til að skoða gamla hluti með sögu. Ef við tökum samskipti safna og skóla sem dæmi þá þurfa söfn að vera með á nótunum hvað er að gerast í menntamálum í heiminum og að sama skapi þarf formlega kerfið að átta sig á kostum þess að læra á safni. Þegar öllu er á botninn hvolft eru söfn gríðarlega öflugar menningarstofnanir sem hafa þýðingarmiklu og valdeflandi menntunarhlutverki að gegna með framlagi sínu til sjálfbærari samfélaga og símenntunar. Þetta framlag felst t.a.m. í samstarfi við ólíka hópa safngesta. Í safnfræðslu snýr sjálfbærnihugtakið að langtímahugsun safna og samböndum þeirra við samfélagið.“

Árið 2019 hefur verið ár tímamóta hjá ÖlmuDís en auk doktorsgráðu fagnaði hún fimmtíu árum sem hún lítur á sem forréttindi. 

„Hún elsku Magnea, vinkona mín og jafnaldra, Guðmundsdóttir (19/4 1969–13/10 2017) náði ekki þeim aldri blessunin. Ég tileinkaði doktorsverkefnið mitt henni og mömmu því þær áttu það sameiginlegt að líta alltaf á björtu hliðarnar og bjuggu yfir miklum mannkostum báðar tvær. Þeirra er sárt saknað.“

AlmaDís kíkir annað slagið suður með sjó og þá sérstaklega til þess að heilsa upp á föður sinn sem nú býr í Njarðvík.

„Honum fannst það nú ekkert sérstakt í fyrstu en er sáttur við það núna. Við Gunni bróðir búum bæði í Reykjavík en Gummi og Himmi búa suðurfrá. Þetta er auðvitað mun fjölmennara samfélag og kannski fjölbreyttara í dag. Þegar ég var að alast upp var bara einn grunnskóli, nú eru þeir fjölmargir. Hafnargatan var í minningunni mun líflegri en ég er ánægð að sjá ákveðna grósku í menningarlífinu.“

AlmaDís með foreldrum sínum, Jónu og Kristni eftir stúdentspróf.

Með pabba ung að árum.

Í greiðslu hjá Hjördísi Hilmarsdóttur, hárgreiðslukonu fyrir mörgum árum.

Á góðri stundu í Keflavík.