Mannlíf

Byrjaði á bók árið 2019 sem kemur út á nýju ári
Marta Eiríksdóttir
Marta Eiríksdóttir skrifar
laugardaginn 4. janúar 2020 kl. 10:30

Byrjaði á bók árið 2019 sem kemur út á nýju ári

Anna Lóa Ólafsdóttir svaraði nokkrum spurningum frá Víkurfréttum um áramótin.

Hvað stendur upp úr í einkalífi þínu á árinu?
F-in 3, fjallgöngurnar, ferðalögin (fór í fjórar óvæntar ferðir á árinu) og fellibylurinn á Spáni. Var í jógaferð og hef sjaldan upplifað annan eins óróa eins og þegar stærðarinnar tré lenti á húsinu sem ég dvaldi í. Best var að nágranni minn hélt að ég hefði dottið úr rúminu!

Fagnaðir þú ákveðnum áfanga eða byrjaðir þú á einhverju nýju 2019?
Byrjaði á bók, draumurinn minn er að rætast og þrammaði upp á fjöll eins og enginn væri morgundagurinn.

Hver fannst þér stóra fréttin á landsvísu?
Óveðrið um daginn, að heimili og bæir séu án rafmagns í marga daga árið 2019 hlýtur að þykja fréttnæmt.

Hver fannst þér stóra fréttin í nærumhverfi þínu?
Hundurinn Dexter sem bættist í fjölskylduna. Er enn pínu hrædd við hann en hlýtur að gilda það sama og með fólk, slatti af þolinmæði, aga og kærleika og við verðum bestu vinir.

Hvað borðaðir þú um áramótin?
Kalkún með fyllingu og sætum kartöflum, sykurpúðasalati og dásamlegri sósu.

Eru einhverjar áramóta-/nýárshefðir hjá þér?
Fjölskyldan er saman á miðnætti. Við fylgjumst með gamla árinu fjara út og tökum á móti því nýja. Óskum hvort öðru gleðilegs nýs árs og grátur og/eða hlátur aldrei langt undan.

Strengir þú áramótaheit?
Já, geri það oft. Núna bíð ég spennt eftir bókinni minni (áætluð 20.02.20) og kem til með að fylgja henni eftir. Annars hafa áramótaheitin síðustu árin verið að segja oftar JÁ, sem hefur gert það að verkum að ég hef gert ótrúlega mikið af skemmtilegum hlutum. Þetta verður því áfram ár JÁ-sins!

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024