RNB 17 júní
RNB 17 júní

Íþróttir

Þríframlengt í mögnuðum leik í Grindavík - UMFN getur tryggt sér sæti í efstu deild
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 4. júní 2021 kl. 09:32

Þríframlengt í mögnuðum leik í Grindavík - UMFN getur tryggt sér sæti í efstu deild

Njarðvík hafði betur gegn Grindavík, 92:94, í öðrum leik liðanna í 1. deild kvenna í körfubolta en leikurinn var á heimavelli Grindvíkinga í gær. Það þurfti að framlengja þrisvar til að knýja fram úrslit í gríðarlega jöfnum og mjög skemmtilegum körfuboltaleik og Njarðvík leiðir nú einvígið með tveimur sigrum gegn engum. Með sigri í þriðja leiknum fer UMFN upp í Domino's deild á næsta tímabili.

Jafnt var á með liðunum allan tímann, baráttan hörð pg skemmtileg tilþrif á báða bóga. Njarðvíkurstúlkur unnu fyrsta leikinn nokkuð örugglega en nú voru Grindvíkingar ekki á þeim buxunum að tapa og sýndu það svo sannarlega. Þær virtust vera að taka leikinn en Kamilla Sól Viktorsdóttir skoraði þriggja stiga körfu fyrir Njarðvík á lokasekúndum venjulegs leiktíma og jafnaði leikinn. Í framlengingunni jöfnuðu Njarðvíkurstúlkur aftur á lokasekúndunum þegar Chelsea Nacole Jennings skoraði tvist og tryggði aðra framlengingu. Í annarri framlengingunni var það hins vegar heimakonur sem þurftu að jafna en þá skoraði Hekla Eik Nökkvkadóttir tveggja stiga körfu og fékk svo víti til að jafna leikinn sem hún og gerði. Í þriðja framlengingunni náðu Njarðvíkurstúlkur að knýja fram sigur. Lokatölur í mögnuðum leik 92-94.

Chelsea Jennings fór mikinn í liði Njarðvíkur í gær og skoraði 44 stig, hirti sjö fráköst og varði þrjú skot. Hekla Eik átti frábæran leik hjá Grindavík en hún fór fyrir heimakonum í framlengingunum en Janno J. Otto, einn þeirra besti leikmaður, fór útaf í upphafi fyrstu framlengingarinnar.

Þriðji leikur liðanna verður á sunnudag í Ljónagryfjunni þar sem Njarðvík getur tryggt sér sigur og sæti í efstu deild á næsta ári.

Myndasafn úr þessum skemmtilega leik má sjá hér með fréttinni.

Grindavík-Njarðvík 92-94 (11-12, 19-22, 17-17, 22-18, 7-7, 12-12, 4-6)

Frammistaða Grindvíkinga: Hekla Eik Nökkvadóttir 29/7 fráköst/6 stoðsendingar, Janno Jaye Otto 21/13 fráköst, Thea Ólafía Lucic Jónsdóttir 13/5 fráköst, Natalía Jenný Lucic Jónsdóttir 9/10 fráköst/7 stoðsendingar, Hulda Björk Ólafsdóttir 7/8 fráköst, Arna Sif Elíasdóttir 6, Jenný Geirdal Kjartansdóttir 4/9 fráköst, Sædís Gunnarsdóttir 3, Emilía Ósk Jóhannesdóttir 0, Edda Geirdal 0, Viktoría Rós Horne 0.
Frammistaða Njarðvíkinga: Chelsea Nacole Jennings 44/7 fráköst/3 varin skot, Kamilla Sól Viktorsdóttir 15/7 fráköst, Helena Rafnsdóttir 13/10 fráköst, Vilborg Jónsdóttir 8/10 fráköst/9 stoðsendingar, Lára Ösp Ásgeirsdóttir 6, Þuríður Birna Björnsdóttir 3/5 fráköst, Krista Gló Magnúsdóttir 3, Ása Böðvarsdóttir-Taylor 2, Júlia Scheving Steindórsdóttir 0, Guðbjörg Einarsdóttir 0, Anna Lilja Ásgeirsdóttir 0, Eva María Lúðvíksdóttir 0.

Chelsea Nacole Jennings skoraði 44 stig, tók 7 fráköst og varði 3 skot.

Grindavík-Njarðvík 1. deild kvenna 2. úrslitaleikur 2021