Flugger
Flugger

Íþróttir

Stinningskaldi hittist á Papas í Grindavík
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 17. maí 2024 kl. 06:16

Stinningskaldi hittist á Papas í Grindavík

„Okkur fannst eðlilegt að keyra stemninguna frekar upp á Papas í Grindavík, heldur en að hittast í Reykjanesbæ,“ segir einn forsprakka Stinningskalda sem er stuðningsmannasveit Grindavíkur í íþróttum, bæði í körfu- og fótbolta.

Á engan er hallað ef félagarnir Friðrik Sigurðsson og Helgi Leó Leifsson eru teknir út fyrir sviga í Stinningskalda en þessi stuðningsmannasveit hefur vakið verðskuldaða athygli síðan í fyrra þegar eitthvað fæddist. Friðrik lýsti upphafinu og fór yfir út af hverju hópurinn vildi keyra stemmarann upp á Papas í Grindavík.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024
Friðrik Sigurðsson og Helgi Leó Leifsson.

„Við byrjuðum þetta í úrslitakeppninni í körfuboltanum í fyrra þegar Grindavík mætti Njarðvík. Við héldum síðan áfram inn í fótboltatímabilið og höfum í raun ekki horft til baka síðan þá. Stemningin í kringum körfuboltann í vetur hefur verið á öðru „level-i“ og náðum við oft upp feiknalegri stemningu í nýja íþróttahúsinu í Grindavík. Við létum gera fána fyrir uppáhaldsleikmanninn okkar, Deandre Kane en á fánanum stendur „King Kane“. Auðvitað breyttist síðan margt í nóvember en við höfum samt haldið stuðningnum við liðið áfram og munum fylgja þeim út tímabilið og vonandi fagna Íslandsmeistaratitli.

Fyrir leik númer tvö vorum við mættir á Brons og tókum svo stemninguna í hliðarsalnum. Við hugsuðum með okkur að við værum Grindvíkingar og ættum auðvitað bara að styðja við okkar menn á Papas, þá Gylfa og Þormar. Ég bar hugmyndina undir þá félaga og það stóð ekki á viðbrögðunum. Áður en við vissum af var búið að græja rútu fyrir okkur úr Reykjavík sem beið eftir okkur eftir leik og skutlaði okkur í bæinn. Mig grunar að Stebbi og Sandra í Einhamar Seafood hafi átt þátt að máli þar en stuðningur þeirra við körfuknattleiksdeildina og okkur í Stinningskalda hefur verið frábær í allan vetur. Þeirra vegna finnst mér að liðið okkar eigi skilið að verða Íslandsmeistari og ég er bjartsýnn á það,“ sagði Friðrik að lokum.