Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Íþróttir

Njarðvíkingar völtuðu yfir Blika í seinni hálfleik
Lisandro Rasio í leiknum gegn Breiðabliki í gær. VF-myndir: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 17. febrúar 2023 kl. 09:17

Njarðvíkingar völtuðu yfir Blika í seinni hálfleik

Njarðvíkingar unnu stórsigur á Breiðabliki í Subway-deild karla í körfuknattleik í Ljónagryfjunni í gærkvöld. Heimamenn stungu af í seinni hálfleik, rufu hundrað stiga múrinn í þriðja leikhluta og unnu að lokum með 40 stiga mun. Grindvíkingar töpuðu aftur á móti mikilvægum stigum á Sauðárkróki þegar Tindastóll vann þrettán stiga sigur en Grindavík er sem stendur í áttunda sæti og síðasta lið inn í úrslitakeppnina.
Lisandro Rasio treður með tilþrifum án þess að Sigurður Pétursson, leikmaður Breiðabliks, fái nokkru um það ráðið. Rasio var með 22 stig og fimm fráköst í gær.

Njarðvík - Breiðablik 135:95

(29:30, 38:27, 36:22, 32:16)

Eftir tiltölulega jafnan fyrri hálfleik skildu Njarðvíkingar gestina eftir í rykinu, ef svo má segja, í seinni hálfleik. Leikinn var hraður sóknarleikur og væri ekki sanngjarnt að tala um mikinn varnarleik.

Heimamenn leiddu með tíu stigum í hálfleik (67:57) en körfunum hreinlega rigndi í þriðja og fjórða leikhluta þegar Njarðvík skoraði 68 stig gegn einungis 38 stigum Blikanna.

Public deli
Public deli

Jose Ignacio Martin Monzon var stigahæstur með 31 stig en allir leikmenn Njarðvíkur komust á blað.

Njarðvík er í næstefsta sæti deildarinnar en Valur vermir toppinn sem stendur. Keflavík getur komist í efsta sæti með sigri á Þór Þorlákshöfn í kvöld en gangi það eftir verða Keflavík, Njarðvík og Valur jöfn með 26 stig.

Njarðvík: Jose Ignacio Martin Monzon 31/7 fráköst, Lisandro Rasio 22/5 fráköst, Dedrick Deon Basile 21/5 fráköst/5 stoðsendingar, Mario Matasovic 20/11 fráköst, Nicolas Richotti 9/5 fráköst/8 stoðsendingar, Oddur Rúnar Kristjánsson 8, Elías Bjarki Pálsson 6, Haukur Helgi Pálsson 5/7 fráköst/5 stoðsendingar, Ólafur Helgi Jónsson 4/6 fráköst, Logi Gunnarsson 3, Jan Baginski 3, Maciek Stanislav Baginski 3.

Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, leit við í Ljónagryfjunni í gær og má sjá myndasafn úr leiknum neðst á síðunni.


Kristófer Breki Gylfason átti fínan leik fyrir Grindavík í gær, var með fimmtán stig, tvö fráköst og eina stoðsendingu.

Tindastóll - Grindavík 95:82

(23:17, 20:15, 23:27, 29:23)

Stólarnir sýndu enga gestrisni og hófu leikinn af miklum krafti, þeir náðu fljótlega yfirhöndinni og höfðu sex stiga forystu í lok fyrsta leikhluta. Tindastóll jók forskotið í ellefu stig í hálfleik (43:32) en Grindvíkingar klóruðu í bakkann og minnkuðu muninn í þrjú stig um miðbik þriðja leikhluta (55:52) en þá tóku heimamenn við sér á ný og höfðu að lokum þrettán stiga sigur (95:82).

Fyrir leik áttu Grindvíkingar möguleika á að ná Tindastóli að stigum en nú er munurinn á milli þeirra orðinn fjögur stig, Tindastóll í því fimmta á meðan Grindavík er í áttunda sæti með fjórtán stig eins og Breiðablik og Stjarnan. Það getur brugðið til beggja vona í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni en Þór Þorlákshöfn er aðeins tveimur stigum á eftir þessum liðum og á leik til góða. Þórsarar hafa unnið síðustju þrjá leiki og eru til alls líklegir.

Grindavík: Damier Erik Pitts 22/4 fráköst/7 stoðsendingar, Kristófer Breki Gylfason 15, Gkay Gaios Skordilis 10/4 fráköst, Valdas Vasylius 8/4 fráköst, Bragi Guðmundsson 8, Zoran Vrkic 7, Ólafur Ólafsson 5/4 fráköst, Magnús Engill Valgeirsson 3/4 fráköst, Arnór Tristan Helgason 2, Hilmir Kristjánsson 2, Hafliði Ottó Róbertsson 0, Hinrik Guðbjartsson 0.

Njarðvík - Breiðablik (135:95) | Subway-deild karla 16. febrúar 2023