Max 1
Max 1

Íþróttir

Meistarakrýning á gamla Melavellinum
Laugardagur 7. september 2024 kl. 06:11

Meistarakrýning á gamla Melavellinum

Körfuboltakonan Anna María Sveinsdóttir var líka í fótbolta

„Ég byrjaði í fótbolta þrettán, fjórtán ára og var alveg þar til ég var 22ja ára, þá var þetta eiginlega ekki hægt lengur með körfunni, en annars var þetta alltaf fótbolti á sumrin og karfa og handbolti á veturna,“ segir Anna María Sveinsdóttir þegar hún er spurð út í knattspyrnuiðkun sína. VF sendi henni gamla mynd úr safni af henni í knattspyrnu í Keflavík.

„Ég spilaði með meistaraflokki og var þar hafsent (miðvörður) þangað til 1992. Viið afrekuðum að verða meistarar í 2. deild árið 1984 og ef mér skjátlast ekki þá vorum við síðustu meistararnir sem voru krýndir á gamla Melavellinum. Árið 1991 vorum við í 2.deild en komumst í bikarúrslit á móti ÍA, þá höfðum við slegið út tvö fyrstudeildarlið,  Þór Ak. og Breiðablik en svo steinlágum við í úrslitaleiknum 6-0. Við vorum samt sem áður kampakátar með þann silfurpening, sá eini á ferlinum sem ég er ánægð með en einhverra hluta vegna var leikurinn spilaður í Mosfellsbæ en ekki á Laugardalsvellinum. Það hefði nú verið gaman að fá að spila einu sinni þar.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Annars vorum við svona upp og niður deild allan minn feril, en mjög skemmtilegur tími. Ég eignaðist fullt af vinkonum og nú er maður farinn að hitta margar af þessum stelpum á golfvellinum sem er ekki leiðinlegt,“ segir Anna sem unir hag sínum núna að slá hvíta boltann um grænar grundir.