Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Íþróttir

Grindvíkingar styrkja liðið fyrir seinni umferð Lengjudeildar kvenna
Helga Guðrún Kristinsdóttir í leik með Grindavík gegn Augnabliki árið 2019. Mynd úr safni Víkurfrétta
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 9. júlí 2021 kl. 14:10

Grindvíkingar styrkja liðið fyrir seinni umferð Lengjudeildar kvenna

Gerðu jafntefli við Víking í gær

Grindvíkingum hefur ekki gengið sem skildi það sem af er í Lengjudeild kvenna í knattspyrnu. Liðið situr í næstneðsta sæti deildarinnar og á enn eftir að vinna leik. Grindavík hefur þó verið að rétta úr kútnum og hefur náð jafntefli í síðustu tveimur leikjum, þeim fyrri gegn HK og í gær gegn Víkingi sem er í fjórða sæti deildarinnar.

Víkingar komust yfir með marki í fyrri hálfleik (23') en Christabel Oduro jafnaði á 34. mínútu. Hún hefur skorað sex af ellefu mörkum Grindavíkur í Lengjudeildinni í sumar.

Fleiri mörk voru ekki skoruð í leiknum og lyktaði honum því 1:1. Með stiginu komst Grindavík í níunda sæti, upp fyrir Augnablik á markatölu, en aðeins þrjú stig eru í HK sem er í áttunda sæti.

Public deli
Public deli

Grindvíkingar hafa styrkt hópinn með tveimur leikmönnum fyrir fallbaráttuna framundan

Helga Guðrún Kristinsdóttir er gengin til liðs við Grindavík á láni frá Stjörnunni en hún er uppalin í Grindavík. Helga Guðrún hefur verið á mála hjá Stjörnunni frá árinu 2019 og er að koma til baka eftir erfið meiðsli. Helga Guðrún átti fína innkomu í leiknum gegn Víkingi í gær en hún hefur leikið 111 leiki í deild og bikar og skorað í þeim 25 mörk.

Ali Beard verður klár í næsta leik með Grindavík. Mynd af Facebook-síðu UMFG
Þá hefur knattspyrnudeild Grindavíkur samið við Eli Beard, 25 ára gamlan bandarískan leikmann, sem er framliggjandi miðjumaður og hefur leikið með WFC Ramat Hasharon og Maccabi Holon í Ísrael á undanförnum árum.
Eli kom til landsins fyrr í vikunni og er komin með keppnisleyfi. Hún verður því með liði Grindavíkur í næsta leik gegn Aftureldingu á miðvikudag.
„Eli er hæfileikaríkur leikmaður sem getur vonandi hjálpað okkur á seinni hluta tímabilsins. Hún er skapandi miðjumaður sem færir okkur meiri gæði á síðasta þriðjungi vallarsins,“ segir Jón Óli Daníelsson, þjálfari Grindavíkur, í færslu á Facebook-síðu Grindavíkur.