Toyota smurdagar 1170
Toyota smurdagar 1170

Íþróttir

Ekki Stjörnuhrap en Stjörnutap í Keflavík
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 25. janúar 2020 kl. 12:50

Ekki Stjörnuhrap en Stjörnutap í Keflavík

Það var sannkallaður stjörnuleikur í Blue höllinni í Keflavík þegar heimamenn töpuðu fyrir Stjörnunni í Garðabæ þegar liðin áttust við í toppslag í Domino’s deildinni í körfubolta i gærkvöldi. Lokatölur urðu 77:83 eftir æsispennandi og frábæran körfuboltaleik.

Þegar 90 sekúndur voru eftir var staðan jöfn 77:77. Gestirnir áttu hins vegar lokasprettinn en miðað við gang leiksins hefðu heimamenn alveg eins getað átt hann og unnið leikinn en lukkuhjólið var með gestum .

Króatinn Nick Tomsick tryggði öðrum fremur Stjörnunni sigurinn með mögnuðum lokakafla þegar hann skoraði 13 stig af 16 stigum sínum í leiknum á síðustu fjórum mínútum leiksins. Hann hafði haft ofur hægt um sig en vaknaði þegar mest á reyndi.

Hjá Keflvíkingum var Deane Williams stigahæstur og hann kom sterkari inn í sóknina en áður en hann er alltaf gríðar sterkur í vörn. Khalil Ullah sem hefur verið með tæp 30 stig að meðaltali í vetur hefur í síðustu tveimur leikjum fengið sterkari vörn á sig og það hefur skilað honum niður fyrir 20 stigin gegn Stjörnunni og Fjölni. Það efast fáir um hæfileika drengsins nema kannski í vörn. Það sem háir Keflavík mest er meira framlag af bekknum. Það þarf að laga ætli liðið sér alla leið. 

Áhorfendur á leiknum og heima í stofu fengu mikið fyrir aurinn sinn og vonandi sjáum við þessi tvö lið í lokaúrslitum í vor. Þau virðast vera bestu lið deildarinnar, alla vega segir staðan það en við vitum að þegar í úrslitakeppni er komið getur allt gerst og það er enn nokkuð í hana.

Keflavík-Stjarnan 77-83 (17-19, 18-25, 25-14, 17-25)

Keflavík: Deane Williams 23/13 fráköst, Dominykas Milka 20/11 fráköst, Khalil Ullah Ahmad 19/4 fráköst, Hörður Axel Vilhjálmsson 10/13 stoðsendingar, Guðmundur Jónsson 3, Veigar Áki Hlynsson 2, Elvar Snær Guðjónsson 0, Davíð Alexander H. Magnússon 0, Reggie Dupree 0, Ágúst Orrason 0, Magnús Már Traustason 0, Callum Reese Lawson 0.

Stjarnan: Urald King 16/8 fráköst, Nikolas Tomsick 16, Hlynur Elías Bæringsson 12/4 fráköst, Ægir Þór Steinarsson 11/8 fráköst/9 stoðsendingar, Tómas Þórður Hilmarsson 9/7 fráköst, Kyle Johnson 7/8 fráköst, Gunnar Ólafsson 6, Arnþór Freyr Guðmundsson 6, Orri Gunnarsson 0, Ágúst Angantýsson 0.

Karfan.is sem er með ítarlega og skemmtilega umfjöllun frá leiknum ræddi við Hörð Axel Vilhjálmsson eftir leikinn.

Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs