Flugger
Flugger

Íþróttir

221
Arnar Helgi Magnússon varð næstleikjahæsti leikmaður Njarðvíkur þegar hann lék 221. leikinn fyrir skemmstu. Myndir úr safni VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 8. júní 2024 kl. 06:52

221

Njarðvíkingurinn Arnar Helgi Magnússon náði þeim merka áfanga að verða næstleikjahæsti leikmaður meistaraflokks Njarðvíkur þegar Njarðvík lagði Þór frá Akureyri af velli með fimm mörkum gegn einu í fimmtu umferð Lengjudeildari karla í knattspyrnu.

Þetta var 221. leikur Arnars Helga fyrir Njarðvík en það eru leikir í deildarkeppni, bikarkeppni og deildarbikarkeppni á vegum KSÍ sem telja. Arnar tók fram úr Ara Má Andréssyni og Bergþóri Inga Smárasyni sem hvor um sig hefur spilað 220 leiki en leikjahæstur er Kristinn Örn Agnarsson með 266 leiki.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024
Illa leikinn og alblóðugur gengur Arnar af velli í leik Njarðvíkur og Þórs á síðasta tímabili. Það má segja að hann hafi náð fram hefndum á föstudaginn þegar Þórsarar steinlágu, 5:1, á Rafholtsvellinum í Njarðvík.


Hafnfirðingur í Njarðvíkunum

Arnar er uppalinn FH-ingur en eftir annan flokkinn skipti hann yfir til Njarðvíkur. „Sá sem þjálfaði mig í öðrum flokk er úr Keflavík, Unnar Stefán Sigurðsson. Hann var að koma aftur hingað og bauð mér að koma og æfa með Njarðvík. Þá var Gummi Steinars að þjálfa liðið og ég hef eiginlega bara verið hérna síðan. Ég hef nánast engar taugar til FH lengur,“ segir Arnar.

Mótið fer rosalega vel af stað hjá ykkur.

„Já, við getum alls ekki kvartað. Taplausir á toppnum eftir fimm leiki – en tökum bara þetta klassíksa, einn leik í einu og horfum bara á næsta leik.“

Arnar hefur gengið í gegnum súrt og sætt með Njarðvík og fengið að kynnast því bæði að vera í fallbaráttu og vinna deild.

„Við vorum í mjög miklum vandræðum fyrsta árið mitt með Njarðvík og vorum bara nálægt því að falla niður í þriðju deild. Náðum að bjarga okkur undir lokin og næsta tímabil flugum við upp úr deildinni mjög sannfærandi. Síðan héldum við okkar sæti mjög þægilega á tímabilinu eftir það en fórum svo niður í aðra deild aftur og vorum þar í tvö tímabil þangað til að við fórum aftur upp þegar Bjarni Jóhannsson var með okkur. Það var svo eiginlega ótrúlegt að við skildum haldast uppi á síðasta tímabili, munaði bara einu marki – en við erum klárlega klúbbur sem á að vera í Lengjudeildinni.“

Nú ert þú búinn að vera hérna í dágóðan tíma, finnst þér ekki klúbburinn Njarðvík vera að stækka?

„Jú, fyrst þegar ég kom var áhugamennskan miklu meiri. Það var lenskan í annarri deildinni á þeim tíma, hún var kannski svipuð því sem er í fjórðu deild núna. Þegar ég kom fyrir svona átta árum síðan voru þetta meira svona gamlir leikmenn sem höfðu verið í Njarðvík eða Keflavík og voru bara að þessu af því þeir höfðu gaman af þessu ennþá. Það er miklu meiri metnaður núna finnst mér, bæði hér í klúbbnum og bara almennt í fyrstu og annarri deildinni. Maður finnur alveg hvað það er settur mikill metnaður í fótboltann í Njarðvík núna, þó Njarðvík sé meira körfuboltafélag í körfuboltabæ, en svo stækkar félagið líka með stækkandi bæjarfélagi.“

Arnar útskrifaðist úr Flensborg áður en hann fór í kennaranám og starfar nú sem kennari í Setbergsskóla. Hann segir að hinn hefðbundni dagur hjá honum skiptist að mestu leyti milli starfsins og æfinga. „Svo á ég kærustu, við byrjuðum að vera saman sama sumari og ég byrjaði með Njarðvík, og við verjum saman þeim litla frítíma sem við eigum. Við eigum hund sem við förum oft með út að labba og erum duglega að finna okkur allskonar að gera.

Við búum á Völlunum í Hafnarfirði, það var alveg hugmynd á tímabili að flytja í Innri-Njarðvík en og erum búin að koma okkur vel fyrir þar. Við komumst ekki nær Njarðvík en það án þess að fara úr bænum,“ segir Arnar en kærastan hans starfar sem lögreglumaður hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Svaðilför á Öxi

Eins og fyrr segir hefur Arnar fengið að kynnast því sæta og því súra á þeim tíma sem hann hefur verið með Njarðvík. Ég bið hann að segja hvað standi upp úr og sé eftirminnilegast á hans ferli með þeim grænu.

„Sko, ég hef lent í ýmsu á mínum árum hérna. Það er úr mörgu að velja, ég hef verið á ferð um landið þar sem var keyrt á kind og núna í sumar þegar við vorum að spila á móti Dalvík og ég blekkti mótherjann með því að kalla á hann að láta boltann fara – sem er víst óíþróttamannsleg hegðun. Við skoruðum en það mark var dæmt af. Hins vegar er án efa eftirminnilegast tímabilið þegar við fórum fyrst upp. Þá áttum við fyrsta leik á tímabilinu úti á landi, fyrir austan á móti Huginn á Egilsstöðum af því að völlurinn var ekki leikfær á Seyðisfirði.

Stefán Birgis, góður félagi minn, var svo flughræddur og hann ákvað að keyra. Mér finnst ekkert rosalega gaman að fljúga þannig að ég ákvað að fara með honum og við tókum tvo aðra með, Hörð markmann og Tedda sem var framherjinn okkar þá.

Við stoppuðum og gistum í bústaði kvöldið fyrir leik, sennilega á Djúpavogi eða Breiðdalsvík, og höfðum það bara notalegt. Grilluðum og svoleiðis. Síðan leggjum við í hann daginn eftir og Stefán er við stýrið, hann ætlar að fara Öxi en tekur vitlausa beygju. Við hinir erum ekkert að pæla í þessu og við keyrum upp einhvern fjallastíg, þetta var eiginlega bara fjórhjólastígur en við höldum áfram og endum á að festa bílinn í einhverjum snjóskafli. Þurftum að grafa hann úr honum til að halda áfram að keyra, ég veit ekki hvert en við enduðum í einhverjum dal. Þá ákváðum við að snúa bara við og taka þjóðveginn.

Við snúum við og tökum eftir því að það er búið að springa á dekki hjá okkur. Förum út til að skipta en þá eru tvö dekk sprungin. Við hringjum bara í þjálfarana og segjum að einhver verði að keyra á móti okkur því við séum með sprungin dekk. Við héldum ennþá að við værum á Öxi.

Við tökum töskurnar okkar og byrjum að labba upp veginn, alveg upp á heiði og endum við einhvern skotveiðikofa. Áin sem við vorum að elta endar líka og við komnir einhvert lengst upp á heiði, alltaf þegar við héldum að við værum að komast yfir heiðina þá tók bara önnur heiði við. Þannig hélt þetta áfram í svona einn og hálfan tíma.

Það var búið að fresta leiknum um klukkutíma og við höldum áfram að þramma. Loksins komumst við yfir heiðina og þá mætti okkur straumþung á og engin brú yfir hana. Við tókum á það ráð að haldast í hendur og vaða yfir hana. Þá vorum við loksins komnir upp á Öxi.

Við stoppuðum einhverja túrista á bíl og tróðum okkur fjórir í aftursætið á einhverjum Suzuki Jimny ef mig minnir rétt. Þeir keyrðu eins og brjálæðingar þessir ferðamenn og við mættum í leikinn, hálftími búinn og setjumst á bekkinn. Ég, Teddi og Stefán komum allir inn á í þessum leik, alveg gersamlega búnir á því.

Eftir leik þurftum við líka að koma okkur heim, sækja bílaleigubílinn. Fá bifvélavirkja til að sækja dekkin og umfelga þau, fara svo aftur uppeftir og setja þau undir. Þannig að við lögðum ekki af stað heim fyrr en um tvö um nóttina.

Ég held að þetta sé það eftirminnilegasta sem ég hef lent í,“ segir Arnar og bætir við að lengi á eftir hafi ekki mátt minnast á þessa svaðilför án þess að hann yrði alveg brjálaður. „Ég er nýfarinn að sjá það broslega við hana,“ segir hann svo að lokum.