Vonbrigði bæjarráðs með ákvörðun Kadeco
Byggingaréttargjöld hindra uppbyggingu íbúða fyrir fatlað fólk á Ásbrú
Bæjarráð Reykjanesbæjar lýsir yfir miklum vonbrigðum með ákvörðun Kadeco um að fella ekki niður byggingaréttargjöld vegna uppbyggingar Brynju leigufélags á Grænásbraut 2 á Ásbrú. Þar stóð til að reisa sjö íbúða raðhús sem ætlað er til úthlutunar til íbúa með fatlanir.
Málið var til umræðu á fundi bæjarráðs þann 4. september þar sem Gunnar Kr. Ottósson skipulagsfulltrúi og Guðlaugur H. Sigurjónsson sviðsstjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs mættu á fundinn.
Bæjarráð telur að samfélagslega mikilvæg uppbygging, sem stuðlar að bættri búsetu og lífsgæðum fatlaðs fólks, eigi að njóta skilnings og stuðnings. Ráðið hefur því falið Kjartani Má Kjartanssyni bæjarstjóra að vinna málið áfram og leita lausna.