Flugger
Flugger

Fréttir

Vinna að gerð varnargarða í Svartsengi með öflugustu tækjum landsins
Unnið við gerð varnargarða austan við Svartsengi. Orkuverið í baksýn. Mynd/Vilhelm Gunnarsson
Fimmtudagur 23. nóvember 2023 kl. 06:08

Vinna að gerð varnargarða í Svartsengi með öflugustu tækjum landsins

Unnið er allan sólarhringinn að gerð varnargarða við Svartsengi. Stórvirkar vinnuvélar ýta og moka upp efni í varnargarða. Meðal annars er stærsta og öflugasta jarðýta landsins að störfum í Svartsengi núna. Það er Caterpillar D11, tæki sem vegur 104 tonn og er með sex metra breiða tönn. Efni er flutt að Þorbirni með vörubílum úr námum. Þaðan er efninu svo mokað á búkollur sem flytja það ofar í hlíðina austan við Svartsengi. Þar er verið að verja orkuverið fyrir hugsanlegu eldgosi frá kvikugangnum eins og hann er.

Á upplýsingafundi Almannavarna á mánudaginn sagði Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarna hjá Ríkislögreglustjóra, að gert sé ráð fyrir að vinna við varnargarða umhverfis Svartsengi taki þrjátíu til fjörutíu og fimm sólarhringa. Áherslan sé núna austan Svartsengis en einnig verður haldið áfram að reisa varnargarð vestur fyrir orkuverið og Bláa lónið. Verkefnið sé brotið upp í margar einingar og margir þættir þess í gangi á sama tíma.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Á upplýsingafundi Almannavarna á laugardag kom fram að búið er að hanna varnar- og leiðigarða sem er ætlað að verja byggðina í Grindavík. Hins vegar er ekki ráðlegt að hefja vinnu við þá fyrr en ljóst er, ef af verður, hvar eldgos komi upp.

Frá vinnu við varnargarða í Svartsengi. Myndir/Golli