Fréttir

Uppbyggingarsjóður veitir styrki fyrir  45 milljónir króna árlega
Logi fræddi Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, um stöðu mála á Suðurnesjum í heimsókn hennar til Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum sem Berglind Kristinsdóttir (t.v.) stýrir. VF-mynd: pket
Fimmtudagur 23. september 2021 kl. 09:46

Uppbyggingarsjóður veitir styrki fyrir 45 milljónir króna árlega

Logi Gunnarsson er nýr verkefnastjóri Uppbyggingarsjóðs Suðurnesja. Sjóðurinn hefur veitt styrki til fjörutíu aðila árlega í mörg ár.

Uppbyggingarsjóður Suðurnesja auglýsir lausa til umsóknar styrki í sjóðinn frá 1. október til 1. nóvember 2021 en sjóðurinn er í umsjá Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum. Logi Gunnarsson er nýr verkefnastjóri sjóðsins en hann hefur áður starfað að áhersluverkefnum fyrir Suðurnesjavettvanginn hjá SSS. Við tókum Loga tali af þessu tilefni og fengum hann til þess að segja okkur betur frá sjóðnum sem auglýsir árlega eftir styrkumsóknum.

Hvernig leggst það í þig að taka við Uppbyggingarsjóðnum?

„Það leggst bara mjög vel í mig, spennandi að sjá grósku í fjölbreyttum verkefnum á svæðinu. Ég sé hversu mikilvægt menningarstarf á Suðurnesjum er eftir að hafa komið mér vel inní þetta starf. Ég er að taka við góðu búi af Björk Guðjónsdóttur sem hefur haldið vel utan um Uppbyggingasjóð í fjölda ára, hún hefur hjálpað mér mikið þessa fyrstu mánuði.“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024
Hvernig ert þú að upplifa nýsköpun á Suðurnesjum?

„Þann stutta tíma sem ég hef unnið hér hjá SSS þá hef ég kynnst mjög flottum nýsköpunarverkefnum og tel vera margt áhugavert í gangi á svæðinu. Það kom mér skemmtilega á óvart hversu mikið af flottum verkefnum eru í gangi hér á Suðurnesjum.“

Hvað er mikið í sjóðnum?

„Á síðustu árum hefur verði úthlutað í kringum 45 milljónir á ári til margvíslegra verkefna.“

Hverjir geta sótt um styrki í þennan sjóð?

„Allir þeir sem eru með nýsköpunar og menningarverkefni á svæðinu okkar. Krafan er að verkefnin séu á sviði menningar og nýsköpunar og stuðli að uppbyggingu á Suðurnesjum. Umsækjendur þurfa að geta sýnt fram á fleiri fjárhagslega bakhjarla en Uppbyggingarsjóð og þurfa þeir að sýna fram á að minnsta kosti 50% framlag á móti styrkjum sjóðsins. Það er ágætt að taka fram að sjóðurinn er samkeppnissjóður og eru umsóknirnar því metnar út frá þeim umsóknum sem koma inn á hverju ári. Við hvetjum því fólk til að gefast ekki upp og sækja um aftur þótt þau hljóti ekki styrk í fyrstu atrennu.“

Hvernig eru umsóknirnar metnar?

„Stjórn sjóðsins leggur áherslu á að verkefnin stuðli að framgangi Sóknaráætlun Suðurnesja. Þar er að finna helstu markmið og áherslur fyrir svæðið sem unnin eru í samráði við hagsmunaaðila á Suðurnesjum á fjögurra ára fresti. Lögð er áhersla á aðkomu fræðastofnana, s.s. samstarf við háskóla eða rannsókna- eða fræðastofnanir, sé verkefnið þess eðlis. Þá er horft til þess hvort verkefnið muni stuðla að nýsköpun og atvinnuþróun í landshlutanum, hvort það skapi störf og hvort líklegt sé að það haldi áfram eftir að stuðningi lýkur. Einnig eru skoðuð samfélagsleg áhrif verkefnisins og hvort það sé líklegt til að hafa jákvæð samfélagsleg áhrif og efli samstarf á Suðurnesjum á sviði menningar- og ferðaþjónustu.“

Eitthvað sem þú vilt ráðleggja þeim sem hyggjast sækja um í sjóðinn?

„Ég vil bara hvetja fólk til að sækja um ef það hefur verkefni sem falla að markmiðum sjóðsins því að við viljum koma þessum fjármunum út í samfélagið til þess að efla það og auka hér fjölbreytni. Ég vil ráðleggja fólki að hefja umsóknarskrifin tímanlega því þau taka tíma, og oft meiri tíma en menn áætla. Þá er gott að geta fengið yfirlestur frá öðrum og góðar ábendingar. Ég vil líka minna á ráðgjöf Heklunnar en starfsmenn hennar veita aðstoð og lesa yfir styrkumsóknir og þá er hægt að leita til mín að sjálfsögðu.“

Opnað verður fyrir umsóknir í sjóðinn þann 1. október n.k. og verður hægt að sækja um til 1. nóvember. Hægt er að nálgast rafræna umsókn á vefsíðu sambandsins á sss.is.