Tómas Þorvaldsson GK 10 „teiknaði“ jólatré á sjó vestur af Hafnabergi
Áhöfn frystitogarans Tómasar Þorvaldssonar GK 10 hefur komist í jólaskap á miðunum og sendir landsmönnum jólakveðjur með óvenjulegum hætti. Í færslu á Facebook-síðunni Báta og bryggjubrölt er sagt frá því að skipverjar hafi „teiknað“ fallegt jólatré á sjó vestur af Hafnabergi og óskað öllum gleðilegra jóla.
Fram kemur í færslunni að Bergþór Gunnlaugsson, skipstjóri, og áhöfn hans séu að ljúka löngum túr sem hófst 21. nóvember. Veiðar hafi staðið nær allan tímann á austfjarðarmiðum og aflabrögð verið góð.
Aflinn er sagður tæp sjöhundruð tonn upp úr sjó.





