Fréttir

Tíu leiguíbúðir fyrir tekjuminni í Grindavík
Hörður Guðbrandsson, formaður Verkalýðsfélags Grindavíkur
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 3. mars 2023 kl. 08:40

Tíu leiguíbúðir fyrir tekjuminni í Grindavík

Byggðar fyrir Bjarg fasteignafélag á rétt rúmu ári. Búsetuform sem er þekkt á Norðurlöndum og í Evrópu.

„Þessar íbúðir eru hugsaðar þeim tekjuminni, ef viðkomandi hækkar í tekjum þá þýðir það ekki að honum eða henni sé hent út, leigan hækkar þá bara,“ segir Hörður Guðbrandsson, formaður Verkalýðsfélags Grindavíkur.

Það var kátt á hjalla í Vesturhópi 61 í Grindavík mánudaginn 27. febrúar en þá afhenti Bjarg fasteignafélag, tíu leiguíbúðir og voru íbúarnir að byrja koma sér fyrir þegar blaðamaður mætti í heimsókn. Hörður Guðbrandsson, formaður Verkalýðsfélag Grindavíkur hefur ýtt á eftir þessu í töluverðan tíma og var glaður í bragði. 

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Það er mikið ánægjuefni að þessar íbúðir séu nú afhentar, nánast algerlega á áætlun hvað varðar tíma og kostnað. HH smíði frá Grindavík byggði íbúðirnar og ber að hrósa þeim fyrir að stand-ast þær áætlanir sem gerðar voru en fyrsta skóflustungan var tekin í árslok 2021 og framkvæmdir hófust í ársbyrjun 2022. Um er að ræða tíu íbúðir; tvær tveggja herbergja, fjórar þriggja, tvær fjögurra og tvær fimm herbergja íbúðir. Bjarg fasteignafélag er óhagnaðardrifið fasteignafélag, stofnað árið 2016. Fyrstu íbúðirnar voru afhentar árið 2019 og í dag er búið að byggja tæpar þúsund íbúðir vítt og breytt um landið, flestar þó á höfuðborgarsvæðinu. Þessar íbúðir eru hugsaðar þeim tekjuminni og þarf viðkomandi að vera búinn að borga í stéttarfélag í sextán mánuði af síðustu tuttugu og fjórum til að koma til greina sem leigjandi. Ef viðkomandi hækkar í tekjum þá þýðir það ekki að honum eða henni sé hent út, leigan hækkar þá bara. Þetta form af búsetu tíðkast víðsvegar í kringum okkur á Norðurlöndunum og í Evrópu. Eðlilega geta tekjulágir ekki lagt fyrir til að eignast eigið húsnæði en svo er þetta líka valkostur, hvers vegna að vera leggja út fyrir eigin húsnæði, þurfa að lenda í dýru viðhaldi eða slíku, þú veist nákvæmlega að hverju þú gengur. Þegar fjölskyldan stækkar þá er möguleiki á að komast úr minni íbúð yfir í stærri, þetta hentar mjög mörgum.“

Óhagnaðardrifið leigufélag

Hörður fór yfir hverjir eiga Bjarg fasteignafélag og hvernig það kom til að íbúðirnar voru að rísa í Grindavík. „Það var ASÍ [Alþýðusamband Íslands] og BSRB [Heildarsamtök stéttarfélaga starfsmanna í almannaþjónustu] sem stofnuðu Bjarg fasteignafélag árið 2016 en þetta eru stærstu hagsmunasamtök á almenna og opinbera vinnumarkaðnum. Þetta er óhagnaðardrifið leigufélag, mjög góð viðbót við íbúðamarkaðinn hér á Íslandi. Ég tók við formennsku Verkalýðsfélags Grindavíkur árið 2018 og tók fljótlega sæti í fulltrúaráði Bjargs í gegnum ASÍ og þar kviknaði hugmyndin að þessum íbúðum hér í Grindavík. Stjórn Verkalýðsfélagsins fjallaði um þetta, við leituðum til bæjaryfirvalda sem tóku okkur mjög vel, allir eru sammála um að þetta sé gott verkefni og það er sannast hér í dag,“ sagði Hörðum að lokum.

Það er ekki amalegt útsýnið úr íbúðunum.