bygg 1170
bygg 1170

Fréttir

Þurfum að auka fjölbreytnina í atvinnulífinu
Jóhann Friðrik er í viðtali við Suðurnesjamagasín Víkurfrétta um stöðuna í Reykjanesbæ. Hér ræðir hann við Pál Ketilsson.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
fimmtudaginn 14. maí 2020 kl. 16:11

Þurfum að auka fjölbreytnina í atvinnulífinu

Auka þarf fjölbreytni í atvinnulífi Suðurnesja svo áföll hafi ekki jafn sterk áhrif á atvinnustig eins og nú er að gerast á tímum COVID-19. Jóhann Friðrik Friðriksson, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, segir að þegar stór sveitarfélög eins og Reykjanesbæ séu svona háð ferðaþjónustu og samgöngum séu áhrif áfalla, eins og nú dynja á okkur, miklu meiri.

„Þetta er okkar veruleiki. Samgöngur og ferðaþjónusta eru mjög stór þáttur í atvinnulífi á Suðurnesjum og kemur þetta ástand því mjög illa við okkur, verr en marga aðra. Þó svo það megi sjá hærri atvinnuleysistölur í minni sveitarfélögum úti á landi er fjöldinn sem verður fyrir slæmum áhrifum af svona stóru áfalli eins og COVID-19 svo mikill því stærstur hluti atvinnubærra manna vinnur störf tengd ferðaþjónustu.

Auðvitað höfum við verið að reyna að auka á fjölbreytni í atvinnulífi í gegnum tíðina en gengið misjafnlega vel. Það hefur gengið ótrúlega vel í ferðaþjónustunni undanfarinn áratug, sérstaklega síðustu fimm árin, og fólksfjölgun að sama skapi verið mjög mikil en þetta sýnir þó svart á hvítu að þetta er of einhæft. Við þurfum að halda áfram að vinna að því að atvinnulíf sé fjölbreyttara. Þegar stærsti vinnustaður landsins stoppar á svona stuttum tíma og stærsti hluti fólks sem þar vinnur býr hér hefur það augljóslega mikil áhrif. Þetta er sláandi staða,“ segir forseti bæjarstjórnar.

Nýta tímann vel

Jóhann segir að það sé mikil áskorun að vinna úr stöðunni sem upp er komin. „Við gerum okkur grein fyrir stöðunni og bæjarfélagið brást snemma við með ýmsum aðgerðum fyrir fólk og fyrirtæki. Sumt er þó ekki hægt að gera, eins og að fella niður fasteignagjöld. Við þurfum að nýta tímann vel sem framundan er og vera raunsæ hvað framtíðina varðar. Við þurfum líka að vera tilbúin þegar þessum veirutíma lýkur en það er ljóst að áhrifin af COVID-19 munu vara lengur en við vorum að vonast. Staðan á næstunni er því ekki góð og það er spurning hvernig við vinnum úr henni.“

Samheldni í bæjarstjórn

„Við þurfum að stofna nýsköpunarsetur, sækja fjármagn í það og þróa fleiri og fjölbreyttari atvinnutækifæri sem kalla á fólk með menntun. COVID-19 er fjórða stóra áfallið sem dynur á Suðurnesjum frá árinu 2006. Við vorum með Varnarliðið og svo ferðaþjónustuna og þessi áföll tengjast þessum tveimur þáttum. Þó eru nokkur nýsköpunarfyrirtæki á svæðinu en við þurfum fleiri tækifæri til framtíðar og þurfum að endurmeta stöðuna til lengri tíma litið. Það hefur verið samheldni í bæjarstjórn um þessi mál og ég hef fulla trú á því að við munum vinna okkur út úr þessum vanda sem nú er kominn upp. Við höfum upplifað mörg áföll og höfum alltaf náð að vinna okkur úr þeim en það hefur auðvitað kostað sitt.“

Endurmetum stöðuna

Jóhann segir að í sveitarfélögum sem Reykjanesbær getur borið sig saman við, eins og til dæmis Akureyri, sé það ljóst að þar er meiri fjölbreytni í atvinnulífinu.

„Það eru til að mynda ekki margar ríkisstofnanir á Suðurnesjum fyrir utan Isavia. Það þarf að horfa til lengri tíma hvað það varðar. Uppgangurinn í ferðaþjónustunni hefur auðvitað verið ótrúlegur og um leið frábær en við viljum samt sem áður að vera þannig í stakk búin að einstaka áföll setji ekki allt á annan endann eins og nú hefur gerst. Þetta áfall mun til dæmis hafa slæm áhrif fyrir fjárhag Reykjanesbæjar. Sem betur fer hefur gengið mjög vel í rekstrinum síðustu ár, sérstaklega síðustu tvö. Við höfum því aðeins borð fyrir báru. Við vorum búin að hlaða vel í framkvæmdir í upphafi árs og reynum að fara í verkefni sem kalla á starfsfólk og flýta einhverjum verkefnum. Í framhaldinu þurfum við síðan að endurskoða fjárhagsáætlun og sjá hvar við stöndum. Við erum í samtali við ríkið og fleiri sveitafélög hvernig hægt er að bregðast best við. Öll stærri sveitarfélög hafa frestað fasteignagjöldum og reynt að koma til móts við skammtímaþætti sem það hefur tækifæri til. Við munum leggja fram plön hvað sveitarfélagið getur gert til að bregðast við þessum vanda á næstunni. Ef hann lengist og við sjáum að hann verður ekki skammvinnur er ljóst að við verðum í stöðu sem við höfum aldrei verið í áður og þurfum að endurmeta stöðuna út frá því.“

Tökum þetta saman

„Ég hef alla tíð verið bjartsýnn. Ég horfi bara á þann þrótt sem er í starfsmönnum Reykjanesbæjar og samfélaginu á Suðurnesjum undir þessum kringumstæðum og ég hef nefnt það í stól forseta bæjarstjórnar að við Suðurnesjamenn höfum gengið í gegnum ýmislegt en ég átti nú ekki von á þessu. Þetta verður áskorun sem við munum öll taka á saman og í samheldni. Ég hef trú á því að samfélagið hér eigi eftir að koma sterkt til baka út úr þessum vanda sem kom aftan að okkur svona snöggt,“ segir Jóhann Friðrik.