Stuðlaberg Pósthússtræti

Fréttir

Tekið verði upp svipað kerfi til sorpflokkunar í Reykjanesbæ og er á Akureyri
Fimmtudagur 25. febrúar 2021 kl. 15:57

Tekið verði upp svipað kerfi til sorpflokkunar í Reykjanesbæ og er á Akureyri

Velferðarráð Reykjanesbæjar hefur veitt sína umsögn við  umhverfis- og loftslagsstefnu Reykjanesbæjar en drög að stefnunni voru lögð fram á síðasta fundi velferðarráðs.

Í afgreiðslu velferðarmála segir að stefnan sé vel framsett og metnaðarfull. Velferðarráð vilji þó koma eftirfarandi á framfæri:

Hringrásarhagkerfið – úrgangur

Mikilvægt er að fræðsla fari fram í sveitarfélaginu um flokkun sorps og á sama tíma að sveitarfélagið taki þá ákvörðun að stíga stærri skref í flokkun sorps í samvinnu við Kölku og Terra. Reykjanesbær á að taka frumkvæði í því að Kalka taki upp svipað kerfi og þekkist t.d. á Akureyri og hefji á þessu ári aðlögun að flokkun og að full flokkun heimilis- og fyrirtækjasorps verði innleidd sem allra fyrst. Akureyrarbær hefur verið í fararbroddi á Íslandi þegar kemur að því að flokka úrgang frá heimilum og fyrirtækjum og heldur úti upplýsingavef sem kallast Græna Akureyri þar sem íbúar og rekstraraðilar geta aflað sér nauðsynlegra upplýsinga. Á Akureyri eru einnig ellefu grenndarstöðvar. Terra sér um sorphirðu í Reykjanesbæ og Terra Norðurland á Akureyri og því ætti að vera þekking innan fyrirtækisins sem hægt er að yfirfæra og miðla til Reykjanesbæjar til að ná betri árangri í úrgangsmálum.

Óskað er eftir að eftirfarandi athugasemdir verði teknar til skoðunar við gerð aðgerðaáætlunar:

Loftslagsmál – mótvægi

Að leitað verði leiða til að kolefnisjafna starfsemi Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar til dæmis með því að kanna möguleika á styrkjum til umhverfisráðuneytisins og/eða til innlendra eða alþjóðlegra sjóða sem styðja við aðgerðir sem leiða af sér kolefnishlutleysi. Reykjanesbær getur tekið frumkvæði í slíku verkefni í samvinnu við Suðurnesjabæ.

Mengun, hljóðvist og loftgæði

Að sveitarfélagið beiti sér fyrir því að flugumferð verði beint framhjá íbúabyggð bæði í flugtaki og aðflugi. Flugbrautir bjóða upp á að slíkt eigi að vera möguleiki frekar en að vélar fljúgi lágt yfir íbúabyggð með tilheyrandi hávaðamengun.