Stuðlaberg Pósthússtræti

Fréttir

Suðurnesjamenn þurfa ekki að spara heita vatnið í kuldakasti
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
miðvikudaginn 2. desember 2020 kl. 13:58

Suðurnesjamenn þurfa ekki að spara heita vatnið í kuldakasti

Suðurnesjamenn þurfa ekki að hafa áhyggjur af skorti á heitu vatni í kuldakasti að sögn Jóhanns Sigurbergssonar hjá HS Orku en Orkuveita Reykjavíkur hefur sett í gang viðbragðsáætlun vegna væntanlegs kuldakasts og hvetja íbúa á þeirra svæði að draga sem mest þeir geta úr notkun á heitu vatni svo að kerfið geti annað eftirspurn.

HS Orka sem framleiðir heitt vatn fyrir Suðurnesin hefur fylgst vel með veðurspám í ljósi spár um kuldakast á næstu dögum. „Það er ánægjulegt að segja frá því að við sjáum ekki fram á annað en að framleiðsla okkar í Svartsengi afkasti þeirri notkun sem búist er við og vel það. Það er alltaf ástæða til þess að hvetja fólk til þess að fara sparlega með heita vatnið rétt eins og aðrar náttúruauðlindir en ekki er þörf á neinum sérstökum aðgerðum af hálfu íbúa til að tryggja að allir fái til sín nægjanlegt heitt vatn meðan þetta gengur yfir.  

Framleiðsla á heitu vatni er lykilþáttur í rekstri HS Orku enda er félagið stofnað árið 1974 í þeim tilgangi að vinna heitt vatn fyrir heimili og fyrirtæki á Suðurnesjunum. HS Orka tekur þessu hlutverki sínu mjög alvarlega og er framleiðsla á heitu vatni í forgangi hjá okkur. Við framleiðum heitt vatn með að nýta jarðhitann til að hita upp ferskt vatn og árið 2016 var lokið við aukningu á framleiðslugetu fyrirtækisins á heitu vatni til að tryggja að við gætum séð íbúum í ört stækkandi bæjarfélögum á Suðurnesjunum fyrir nægu heitu vatni, jafnvel við svona aðstæður eins og eru að skapast þessa daganna,“ segir Jóhann í svari til Víkurfrétta um hvort Suðurnesjamenn þurfi að spara heita vatnið út af kulda.