Stolt Sea Farm hyggst bæta aðstöðu við fiskeldisstöð á Reykjanesi
Stolt Sea Farm Iceland hf. hefur í hyggju að bæta aðstöðu í fiskeldisstöð sinni að Vitabraut 7 á Reykjanesi. Fyrirtækið áformar að reisa tjaldskemmu yfir starfsemi sem nú fer fram utandyra á steyptu plani við vesturhorn lóðarinnar.
Í skemmunni verður sinnt ísun og þvotti á eldisfiski en markmið framkvæmdarinnar er að bæta vinnuaðstöðu starfsfólks og tryggja skjól gegn veðri og öðrum ytri aðstæðum.
Umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar samþykkti erindi fyrirtækisins á fundi sínum með fyrirvara um grenndarkynningu, án athugasemda. Þar sem um litla breytingu á deiliskipulagi er að ræða, sem ekki hefur teljandi áhrif utan lóðar, verður málið unnið samkvæmt einfölduðu ferli skv. 43. grein skipulagslaga.