Andmæla fyrirhugaðri „gusu“-aðstöðu í Vogum
Bæjarráð Sveitarfélagsins Voga hefur tekið undir sjónarmið hóps íbúa sem andmæltu fyrirhuguðu stöðuleyfi fyrir gám með svokallaðri gusu-aðstöðu við enda Hvammsgötu.
Á fundi bæjarráðs 30. júlí voru lögð fram skrifleg andmæli íbúa vegna grenndarkynningar málsins. Íbúarnir lýstu yfir áhyggjum af staðsetningu aðstöðunnar á grassvæði við götulokið. Bæjarráð tók undir sjónarmið þeirra og mælti með því að fundinn verði annar staður fyrir starfsemina. Málinu hefur verið vísað áfram til skipulagsnefndar.
Skipulagsnefnd sveitarfélagsins tók nýverið fyrir erindi um varanlegt stöðuleyfi fyrir gáminn. Fulltrúar verkefnisins kynntu hugmyndina á fundi nefndarinnar og útskýrðu hvernig aðstaðan yrði nýtt til að bjóða upp á heilsutengda þjónustu. Ætlunin er að halda reglulega viðburði þar sem lögð er áhersla á vellíðan og slökun með skipulögðum gufulotum undir leiðsögn.
Við umfjöllun málsins vék Andri Rúnar Sigurðsson af fundi. Nefndin þakkaði fulltrúum verkefnisins fyrir kynninguna og fól umhverfis- og skipulagssviði að kynna málið fyrir nágrönnum áður en það yrði tekið til frekari afgreiðslu.
Hvað er gusa?
Gusa er skipulögð gufulotusamvera undir handleiðslu svokallaðs „gusumeistara“. Þátttakendur fara í þrjár stuttar gufulotur þar sem notaðar eru ilmolíur, þari, tónlist, blævængir og handklæðahreyfingar til að skapa róandi stemningu. Á milli lotanna er hvatt til kælingar, til dæmis í hafi eða á grasflötum. Hugmyndin byggir á norrænni gufumenningu og sameinar náttúruupplifun, slökun og núvitund.