Flugger
Flugger

Fréttir

Stofna Stuðningstorg fyrir Grindvíkinga
Þriðjudagur 28. nóvember 2023 kl. 10:22

Stofna Stuðningstorg fyrir Grindvíkinga

Í samstarfi við Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra og Rauða Krossinn hefur íslenska fjarheilbrigðisfyrirtækið Kara Connect komið rafrænu Stuðningstorgi á laggirnar sem gerir Grindvíkingum kleift að sækja sérhæfðan stuðning og heilbrigðisþjónustu sér að kostnaðarlausu frá og með deginum í dag.

„Grindvíkingar hafa orðið fyrir gífurlegu áfalli – og vildum við leggja okkar af mörkum til þess að veita þeim þann stuðning sem þau þurfa. Þess vegna ákváðum við að stofna Stuðningstorg þar sem Grindvíkingar geta sótt sér áfallahjálp og sálrænan stuðning á einfaldan og aðgengilegan hátt,“ segir Sigrún Eggertsdóttir, starfsmaður Köru Connect.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Ósérplægnir sérfræðingar leggja hönd á plóg

Verkefnið byggir á ósérplægni hinna ýmsu sálfræðinga, fjölskylduráðgjafa, iðjuþjálfa og annarra sérfræðinga sem allir gefa tíma sinn og vinnu til stuðnings Grindvíkingum – en auk þess gefur Kara Connect alla sína vinnu án endurgjalds. Sérfræðingarnir koma hvaðanæva að, en auk íslenskumælandi sérfræðinga hafa pólsku-, spænsku- og enskumælandi sérfræðingar rétt fram hjálparhönd.

„Torgið býður Grindvíkingum upp á að velja sér sérfræðing til að tala við í einrúmi í fjarviðtali eða á staðnum. Kerfið er einfalt, en öruggt og býður upp á sérfræðinga á ólíkum tungumálum sem er alltaf áskorun að veita aðgengi að. Við erum þessum sérfræðingum sem koma frá alls konar löndum og þekkja áskoranir okkar að gefa vinnuna sína óendanlega þakklát,“ segir Elfa Dögg S. Leifsdóttir hjá Rauða Krossinum

Gefa að lágmarki þrjá tíma – 40+ sjálfboðaliðar taka þátt

Hver sérfræðingur býður fram að lágmarki 3 tíma og margir bjóða fleiri eða aukinn stuðning. Skjót viðbrögð, gjafmildi og gæska næstum 40 sjálfboðaliða hafa farið langt fram úr björtustu vonum allra aðstandenda verkefnisins. „Við þökkum öllum sjálfboðaliðum sem hafa komið að verkefninu hjartanlega fyrir,“ segir í tilkynningu.