Fréttir

Sóttu bát í vélarvandræðum vestur af Garðskaga
Ljósmyndir: Slysavarnafélagið Landsbjörg.
Miðvikudagur 27. mars 2024 kl. 13:08

Sóttu bát í vélarvandræðum vestur af Garðskaga

Aðstoðarbeiðni barst síðdegis í gær frá fiskiskipi sem staðsett var um 15 sjómílur norðvestur af Garðskaga. Ástæða aðstoðarbeiðni var að aðal skrúfa skipsins var óvirk en vélar í lagi sem og bógskrúfa.

Björgunarskipið Hannes Þ. Hafstein lagði úr Sandgerðishöfn rétt upp úr klukkan 17:30 og hélt áleiðis að fiskiskipinu. Engin yfirvofandi hætta var á ferðum, en ljóst að skipið kæmist ekki fyrir eigin vélarafli til hafnar.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Þegar BS Hannes Þ. Hafstein kom að skipinu kom í ljós að erfitt myndi reynast að koma dráttartaug í stefni þess sökum gerðar þess. Skipstjóri Hannesar óskaði þá eftir að BS Jóhannes Briem yrði kallaður út og yrði til taks. Sökum sjólags þurfti að sæta færi til að koma taug í skipið og gekk það brösuglega. Stjórnhæfni nýja björgunarskipsins Jóhannesar Briem er talsvert betri en gamla Hannesar.

Áhöfn Hannesar tókst þó að koma taug í skipið, en töldu rétt að halda för Jóhannesar áfram á staðinn, þar sem talsverð alda var í Garðskagaröstinni og einhverjar líkur taldar á að dráttartaugin gæti slitnað sökum þess að einungis var hægt að koma grennri taug í dráttarauga fiskibátsins.

Jóhannes Briem var kominn á vettvang um 10 leitið í gærkvöldi og byrjaði á að kanna ástand dráttartaugar og tengingar hennar við fiskiskipið. Það leit vel út og því haldið áfram til hafnar í Njarðvík þar sem landa átti úr fiskiskipinu og taka það svo til viðgerðar. Jóhannes Briem fylgdi því skipunum til hafnar í Njarðvík, þangað sem komið var rétt um miðnætti.

Myndskeið með fréttinni er frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg.