Stuðlaberg Pósthússtræti

Fréttir

Skjálfandi ár óvissu við Grindavík
Kort af vefsíðunni Skjálfta-Lísa sem sýnir uppsafnaða jarðskjálfta síðustu 12 mánuði.
Laugardagur 23. janúar 2021 kl. 08:06

Skjálfandi ár óvissu við Grindavík

Óvissustig Almannavarna var virkjað þann 26. janúar í fyrra, fyrir rétt tæpu ári síðan. Ástæðan var landris sem hafði mælst dagana þar á undan vestan við fjallið Þorbjörn. Jarðskjálftahrina hafði verið í gangi á svæðinu á sama tíma og talið að möguleg kvikusöfnun væri undir svæðinu við Þorbjörn.

Í samantekt af vef Veðurstofu Íslands sem gerð var á mánudag má sjá að frá því óvissustigi var lýst yfir þann 26. janúar í fyrra hafa orðið 21.128 jarðskjálftar á Reykjanesskaganum. Langflestir þessara skjálfta eru smáir. Alls hafa orðið 890 skjálftar sem eru af stærðinni M2,0 að þremur að stærð. Jarðskjálftar sem eru M3,0 að fjórum eru alls 112 talsins. Þrettán skjálftar voru M4,0 að fimm að stærð og tveir jarðskjálftar hafa orðið á síðustu tólf mánuðum sem eru stærri en M5,0.

Fyrri stóri jarðskjálftinn varð í hrinu við Fagradalsfjall þann 19. júlí og mældist M5,1. Seinni skjálftinn og sá stærsti frá því óvissustiginu var lýst yfir varð 20. október með upptök á Núpshlíðarhálsi og mældist M5,6.

Atburðarásin er óvenjuleg fyrir svæðið

Nákvæmar mælingar á jarðskorpuhreyfingum á Reykjanesskaganum ná yfir tæplega þrjá áratugi. Á því tímabili hefur sambærilegur landrishraði ekki mælst. Atburðarásin er því óvenjuleg fyrir svæðið ef miðað er við reynslu undanfarinna áratuga. Landrisið mælist samfara jarðskjálftahrinu austan við rismiðjuna (norðaustan við Grindavík).

Dæmi um hraungos úr sprungum á 13. öld

Landrisið mældist á flekaskilum og innan eldstöðvakerfis Svartsengis sem er ýmist talið sjálfstætt eldstöðvakerfi eða talið vera hluti stærra kerfis sem kennt er við Reykjanes. Síðast gaus í kerfinu í Reykjaneseldum sem stóðu yfir með hléum á tímabilinu 1210 til 1240 en á því tímabili gaus nokkrum sinnum þar af urðu þrjú eldgos í Svartsengiskerfinu. Eldgosin voru hraungos á eins til tíu kílómetra löngum gossprungum en engin sprengigos eru þekkt í Svartsengiskerfinu. Stærsta gos í hrinunni á 13. öld myndaði Arnarseturshraun (um 0,3 km3 og 20 km2). Algengast er að gos af þessari gerð standi yfir í nokkra daga, upp í nokkrar vikur.

Jarðskjálftavirkni er mjög algeng á svæðinu og tengist flekahreyfingum, jarðhitavirkni og hugsanlega innskotavirkni. Stærstu skjálftar sem mælst hafa á vesturhluta Reykjanesskagans eru um 5,5 að stærð. Skjálftinn í október var því á pari við þá stærstu sem orðið hafa á svæðinu.

Jarðskjálftavirknin í október átti sér stað á norður-suður sprungum á brotabelti Reykjanesskaga. Það bendir til þess að virknin sé vegna flekahreyfinga og hún á sér líklega stað núna af völdum spennubreytinga vegna kvikuinnskotsvirkninnar á Reykjanesskaga sem hófst í janúar á síðasta ári. Þar sem nokkur innskot hafa orðið á skaganum síðan þá.

Um nýliðin áramót tók gildi viðbragðsáætlun vegna eldgoss á Reykjanesi sem er unnin af lögreglustjóranum á Suðurnesjum, almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og almannavarnanefnd Grindavíkur. Viðbragðsáætlunin segir fyrir um skipulag og stjórnun aðgerða í kjölfar eldgoss eða annarra hamfara við Grindavík. Þá er hægt að notast við áætlunina þegar þörf er á rýmingu vegna annars konar hamfara. Fjöldahjálparstöðvar eru þær sömu og viðbragðsaðilar þeir sömu.

Frá íbúafundi í Grindavík í janúar 2020 þar sem farið var yfir stöðuna sem upp var komin.