Nýsprautun flutt
Nýsprautun flutt

Fréttir

Samráð við börn vegna skipulagsmála í Reykjanesbæ
Föstudagur 3. febrúar 2023 kl. 07:08

Samráð við börn vegna skipulagsmála í Reykjanesbæ

Reykjanesbær stendur að innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og verða þannig hluti af verkefninu Barnvæn samfélög. Unnið er að því að allir starfsmenn Reykjanesbæjar fái fræðslu um Barnasáttmálann og réttindi barna í gegnum rafrænan fræðsluvettvang UNICEF á Íslandi. Það er mikilvægt að heyra raddir barna í sveitarfélaginu og sáu starfsmenn umhverfis- og framkvæmdasviðs tækifæri í að auka samráð við börn í skipulagsvinnu. Þetta kemur fram á vef Reykjanesbæjar.

Reykjanesbær og JeES arkitektar vinna nú að nýju deiliskipulagi fyrir Hafnargötu og var ákveðið að samráð yrði við nemendur í Myllubakkaskóla, þar sem deiliskipulagssvæði tilheyrir þeirra skólahverfi. Markmiðið var að fræða börn um skipulagsmál og hvernig þau geta haft áhrif á nærumhverfi sitt. Í samráði er leitast eftir sjónarmiðum og börnin láti sínar skoðanir í ljós.

Nemendur í 3. bekk og 6. bekk í Myllubakkaskóla fóru í vettvangsferðir, 30. nóvember og 2. desember 2022, með verkefnastjóra umhverfismála Reykjanesbæjar. Tilgangur ferðanna var að skoða umhverfi á og við Hafnargötu. Nemendur fengu fræðslu og upplýsingar um skipulagsmál í ferðinni og var samtal tekið á nokkrum stöðum, s.s. á gatnamótum Hafnargötu og Skólavegar, við opið svæði við sjávarsíðu, á gatnamótum Hafnargötu og Aðalgötu og við verslanir á Hafnargötu.

Nemendur unnu verkefni með tillögum fyrir nýtt deiliskipulag og afhentu nemendur í 3. bekk skipulagsfulltrúa ábendingar í ráðhúsi Reykjanesbæjar og ábendingar frá 6. bekk bárust í tölvupósti frá umsjónarkennara. Tillögur voru unnar á fjölbreyttan hátt; í spjaldtölvum, á blaði, í sögu, í frásögn og teikningum. Unnin var samantekt á tillögum sem var kynnt fyrir nemendum. Þar var útskýrt fyrir börnum hvað hægt sé að hafa áhrif á og hvernig unnið verður úr tillögum þeirra.