Sækja um leyfi fyrir „gusu“-aðstöðu við Hvammsgötu
Skipulagsnefnd Sveitarfélagsins Voga tók nýverið fyrir erindi þar sem óskað er eftir varanlegu stöðuleyfi fyrir gám á grassvæði við enda Hvammsgötu. Í gámnum er fyrirhugað að starfrækja svokallaða Gusu, heilsutengda þjónustu þar sem boðið er upp á skipulagða gufulotur undir leiðsögn.
Aðilar að verkefninu kynntu erindið á fundi nefndarinnar og skýrðu hvernig aðstaðan væri hugsuð. Þar kom fram að ætlunin sé að halda þar úti reglulegum viðburðum í gufu með áherslu á vellíðan og slökun.
Við umfjöllun málsins vék Andri Rúnar Sigurðsson af fundi. Skipulagsnefnd þakkaði fulltrúum verkefnisins fyrir kynninguna og fól umhverfis- og skipulagssviði að kynna erindið fyrir nágrönnum áður en málið verður tekið til frekari afgreiðslu.
Hvað er gusa?
Gusa er skipulögð gufulotusamvera undir handleiðslu svokallaðs Gusumeistara. Þátttakendur fara í þrjár stuttar gufulotur þar sem notaðar eru ilmolíur, þari, tónlist, blævængir og handklæðahreyfingar til að skapa róandi og endurnærandi stemningu. Á milli lota er hvatt til kælingar, t.d. í hafinu eða á grasinu, segir í kynningu á Gusu á netinu. Hugmyndin að gusunni byggir á norrænni gufumenningu og sameinar náttúruupplifun, slökun og leiðsögn í núvitund.