Fréttir

Rúmur helmingur atvinnulausra með erlent ríkisfang
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
fimmtudaginn 17. september 2020 kl. 09:41

Rúmur helmingur atvinnulausra með erlent ríkisfang

Fréttir af atvinnuleysi á Suðurnesjum hafa verið áberandi síðustu vikur. Núna lætur nærri að fimmti hver vinnufær íbúi á Suðurnesjum sé án atvinnu. Þessar tölur segja okkur líka að 80% Suðurnesjamanna á vinnumarkaði eru með vinnu.

Í fundargerð bæjarráðs Reykjanesbæjar eru gögn um þróun atvinnuástandsins frá mánuði til mánaðar í sumar. Þar kemur fram að 66% þeirra sem eru án atvinnu eru á aldrinum 18 til 39 ára. Hópurinn skiptist þannig að 53% eru karlar en 47% konur. Þá kemur fram að 54% þeirra sem eru án vinnu eru með erlent ríkisfang, langflestir frá Póllandi.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Samkvæmt sömu samantekt er helmingur þeirra sem hafa misst vinnuna starfsfólk úr ferðaþjónustu og flugsamgöngum. Næststærsti hópurinn kemur úr iðnaði og sjávarútvegi eða 19%. Þá koma 11% úr hópnum verslun, viðgerðir og vöruflutningar og önnur 11% úr opinberri þjónustu og menningarmálum.