Reykjanesbær vill stöðva rekstur kísilvers
-Meðan unnið er að nauðsynlegum úrbótum
	Bæjarráð Reykjanesbæjar samþykkti samhljóða eftirfarandi bókun á fundi sínum í dag.
	
	„Kísilmálmverksmiðja Sameinaðs sílikon hf. hefur nú verið starfrækt í 9 mánuði án þess að tekist hafi að stöðva mengun frá verksmiðjunni en mengun sem þessi gengur þvert á forsendur starfsleyfis verksmiðjunnar.
Hluti íbúa Reykjanesbæjar hefur ítrekað orðið fyrir verulegum óþægindum og vanlíðan vegna þess og slíkt er með öllu ólíðandi.
Í samtölum við forsvarsmenn fyrirtækisins hefur komið fram að nú liggi fyrir listi yfir atriði sem enn þarfnast lagfæringar og úrbóta sem taka mun vikur eða jafnvel mánuði að hrinda í framkvæmd.
Að óbreyttu má því búast við áframhaldandi mengun frá verksmiðjunni með tilheyrandi óþægindum fyrir íbúa.
Í ljósi þessa telur bæjarráð Reykjanesbæjar nauðsynlegt að rekstur verksmiðjunnar verði stöðvaður hið fyrsta, á meðan unnið er að nauðsynlegum úrbótum, svo koma megi í veg fyrir áframhaldandi mengun.“


 
	
			


 
						 
						 
						 
						 
						 
						

 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				 
				