Fréttir

Ókeypis aðgangur á Rokksafn Íslands til áramóta
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
fimmtudaginn 24. september 2020 kl. 12:33

Ókeypis aðgangur á Rokksafn Íslands til áramóta

Frítt verður á Rokksafn Íslands til áramóta í boði Reykjanesbæjar en bæjarráð tók ákvörðun þess efnis nýverið. Að auki verður ókeypis aðgangur að öðrum söfnum Reykjanesbæjar, s.s. að Listasafni Reykjanesbæjar, Byggðasafni Reykjanesbæjar og Duus safnahúsum.

Á Rokksafninu er að finna tímalínu um sögu íslenskrar tónlistar á Íslandi allt frá árinu 1835 til dagsins í dag. Til viðbótar við tímalínuna eru tvær sérsýningar; „Einkasafn Poppstjörnu“ um Pál Óskar og „Þó líði ár og öld“ um Björgvin Halldórsson.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Gestum Rokksafnsins býðst líka að tilla sér í kvikmyndasal þar sem sýndar eru ýmsar heimildarmyndir um íslenska tónlist. Á safninu má líka finna hljóðbúr og geta gestir reynt á listræna hæfileika sína og prófað rafmagnstrommusett, gítar, bassa, sungið í sérhönnuðum söngklefa og prófað að hljóðblanda. Á safninu er einnig að finna gagnvirkt sýningaratriði þar sem gestir geta kafað dýpra í sögu ákveðinna listamanna og hljómsveita. Sjón er sögu ríkari!

Nú er því rétti tíminn til að skella sér í ísbíltúr um Suðurnesin og skella sér ókeypis á söfn Reykjanesbæjar.