Fréttir

Mörg og mikil tækifæri fólgin í því að vera í Grindavík
Séð yfir svæði austast í Grindavík þar sem nýtt hverfi fyrir um 400 íbúðaeiningnar hefur verið skipulagt. Þar munu búa yfir 1000 manns þegar hverfið er fullbyggt.
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
fimmtudaginn 24. september 2020 kl. 08:24

Mörg og mikil tækifæri fólgin í því að vera í Grindavík

- segir Atli Geir Júlíusson sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs Grindavíkurbæjar

„Við vorum að kynna til leiks nýtt deiliskipulag sem er í auglýsingu núna en við höfum verið að vinna að skipulaginu síðasta árið eða svo. Ástæðan er sú að það hefur verið mikil eftirspurn eftir lóðum og ekki mikið til. Við þurfum nýtt hverfi og nýjar lóðir fyrir verktaka og einstaklinga til að byggja. Þarna erum við að útbúa hverfi sem mun rúma um 400 íbúðaeiningar ef menn fullnýta þá möguleika sem deiliskipulagið býður upp á. Þetta getur því orðið hverfi þar sem munu búa rúmlega 1.000 manns þegar það er fullbyggt,“ segir Atli Geir Júlíusson, sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs Grindavíkurbæjar, í samtali við Víkurfréttir.

Atli Geir segir að íbúar sem mættu á íbúafund á dögunum þar sem deiliskipulagstillagan var kynnt hafi verið ánægðir með þær hugmyndir sem þarna eru settar fram. Um er að ræða skemmtilega, blandaða byggð. Í boði verða lóðir fyrir einbýlishús, parhús, raðhús, parhús á tveimur hæðum, fjölbýlishús á tveimur og þremur hæðum. „Við erum að reyna að bjóða upp á fjölbreytta byggð og í hverfinu er gert ráð fyrir að rísi leikskóli. Hann fer í byggingu á næstu árum, samhliða uppbyggingu hverfisins. Þá er þarna lóð fyrir verslun eða þjónustutengda starfsemi.“

Það er ekki langt síðan fluttar voru fréttir af þrjúþúsundasta Grindvíkingnum en þegar nýja hverfið verður fullbyggt má gera ráð fyrir að bæjarbúar verið orðnir 4.500 talsins.

„Við erum að stækka hratt eins og nágrannasveitarfélögin en kannski ekki jafn hratt og Reykjanesbær. Það er eftirsótt að búa hérna. Það er mikið íþróttalíf í bænum og hér er gott að vera með fjölskyldur og börnum líður vel hérna,“ segir Atli Geir.

Aðspurður um hverjir séu að flytja í nýtt húsnæði í bænum segir Atli Geir að þetta séu bæði heimafólk og fólk sem sé að flytja til bæjarins. Dæmi eru um að gamlir Grindvíkingar séu að koma aftur heim og þá er það líka staðreynd að það er ódýrara að byggja og búa í Grindavík en t.d. á höfuðborgarsvæðinu. „Við finnum fyrir því að fólk sé að koma af höfuðborgarsvæðinu og sé að leita sér að húsnæði og framtíðarbúsetu.“

Atvinnulíf í Grindavík er sterkt. Þar er öflug útgerð og fiskvinnsla en einnig fjölbreytt önnur tækifæri, m.a. fyrir menntað fólk. Nýtt fyrirtæki, Marine Collagen, er að koma sér fyrir við höfnina og þá er fjölbreytt atvinnuflóra í auðlindagarðinum, hvort sem það er Bláa lónið, ORF líftækni, HS Orka eða annað. Þá er öflugt fiskeldi við bæjardyrnar og það er stækkandi atvinnuvegur. „Það eru gríðarlega mörg og mikil tækifæri fólgin í því að vera í Grindavík, þannig að við væntum þess að við höldum áfram að byggjast upp á næstu árum,“ segir Atli Geir Júlíusson í viðtali við Víkurfréttir.

Nánar er rætt við Atla Geir í Suðurnesjamagasíni Víkurfrétta á sjónvarpsstöðinni Hringbraut og á vf.is á fimmtudagskvöld kl. 20:30.


Hópsskóli í Grindavík verður brátt stækkaður en púði undir annan áfanga skólans hefur þegar verið útbúinn.

VF-myndir: Hilmar Bragi