Fréttir

Minni mengun og 52 metra hár skorsteinn á endurbættu kísilveri - „Vonsvikinn“ - segir forseti bæjarstjórnar
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
miðvikudaginn 12. janúar 2022 kl. 15:08

Minni mengun og 52 metra hár skorsteinn á endurbættu kísilveri - „Vonsvikinn“ - segir forseti bæjarstjórnar

Guðbrandur Einarsson, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar og alþingismaður og Hannes Friðriksson, bæjarbúi og andstæðingur kísilverksmiðju í Helguvík, gagnrýna þá fyrirætlan Stakksbergs, dótturfélags Arion banka, um að koma kísilverksmiðju í gang á nýjan leik. Í áliti Skipulagsstofnunar sem birt var á gamlársdag er farið yfir matsskýrslu Stakksbergs sem hyggur á endurræsingu verksmiðjunnar eftir verulegar endurbætur sem fela m.a. í sér byggingu 52 hás skorsteins.

Verkmiðjan United Silicon hætti starfsemi 1. september 2017 og hálfu ári síðar fór rekstur hennar í gjaldþrot. Í áliti Skipulagsstofnunar, kemur fram að skýrsla Stakksbergs uppfylli skilyrði laga um mat á umhverfisáhrifum en bendir á marga þætti sem þurfi að uppfylla og bæta frá fyrri rekstri verksmiðjunnar. 

Í matsskýrslunni er gert ráð fyrir að ráðast í tæknilegar og rekstrarlegur endurbætur á verksmiðjunni og mannvirkjum sem reist voru af Sameinuðu Sílíkoni hf., kísilverksmiðju með einn ljósbogaofn og framleiðslugetu upp á 25.000 tonn af kísli á ári. Síðari áfangar fela í sér uppbyggingu frekari mannvirkja og fjölgun ofna. Fullbyggð verksmiðja mun framleiða allt að 100.000 tonn á ári í fjórum ljósbogaofnum. 

Meðal breytinga á verksmiðjunni strax í fyrsta áfanga er að reisa 52 m háan skorstein í stað þess að útblástur fari út um rjáfur síuhúss. Endurbætur á verksmiðjunni miði að því að bæta búnað og rekstur þannig að stopp á ofnum verði í lágmarki og skorsteinn muni tryggja betri dreifingu efna í útblæstri. Stakksberg metur áhrif á heilsu óveruleg. Skipulagsstofn­un telur líkur á að íbúar í nágrenn­inu komi til með að verða varir við lykt frá starf­sem­inni en tíðni til­vika og styrkur lyktar verði minni en á fyrri rekstr­ar­tíma.

Framleiðslugeta eftir fyrsta áfanga verður 25.000 tonn á ári. Fyrirhugað er að bæta við einum ofni og auka framleiðslugetu um 25.000 tonn á ári í hverjum áfanga eftir þann fyrsta. Í öðrum áfanga verksmiðjunnar verður núverandi ofnhús stækkað en byggt verður nýtt ofnhús fyrir þriðja og fjórða áfanga. Annar áfangi mun samnýta skorstein með þeim fyrsta en gert ráð fyrir að byggja samskonar skorstein fyrir þriðja og fjórða áfanga. Hverjum ofni sem bætist við fylgja ýmis mannvirki, eins og síuhús og kælivirki. Nokkur ár geta liðið á milli áfanga en Stakksberg áformar að reisa annan áfanga þegar stöðugleiki er kominn á rekstur fyrsta áfanga. Staða á mörkuðum muni ráða því hvenær verði ráðist í þriðja og fjórða áfanga.

Í skýrslu Stakksbergs kemur fram að á rekstrartíma kísilverksmiðjunar verði áhrif á samfélag talsvert jákvæð. Áætlað er að um 70–80 bein störf verði í verksmiðjunni í 1. áfanga og í fullbyggðri verksmiðju verði fjöldi starfa allt að 200. Að mati Stakksbergs mun verksmiðjan líklega draga úr atvinnuleysi á svæðinu og renna styrkari stoðum undir atvinnulíf, sem hafi jákvæð áhrif á íbúa og sveitarfélög.

Á grundvelli fyrirliggjandi gagna telur Skipulagsstofnun að neikvæð áhrif á heilsufar sem íbúar Reykjanesbæjar upplifðu á fyrri rekstrartíma megi fyrst og fremst rekja til þess hvernig staðið var að hönnun og rekstri verksmiðju Sameinaðs Sílikons. Að því gefnu að innleiðing endurbóta verði farsæl telur Skipulagsstofnun að áhrif VOC-efna á heilsufar verði óveruleg.

Í fjölda athugasemda almennings við frummatsskýrslu Stakksbergs komu fram áhyggjur af áhrifum á lykt og heilsu með vísan til fyrri rekstrartíma. Stakksberg hyggst halda úti vefsíðu með niðurstöðum vöktunar og upplýsingum um frávik. Einnig verður þar hægt að leggja fram nafnlausar ábendingar um lyktarmengun sem fylgt verður eftir með mælingum á VOC-efnum.

Ófriður

„Íbúar í Reykjanesbæ munu aldrei sættast á að rekstur þessarar verksmiðju fari í gang aftur og ég óttast að verulegur ófriður verði nái þetta fram að ganga. Ég er að sjálf­sögðu mjög von­svik­inn yfir þessu áliti. Enn og aftur telur Skipu­lags­stofnun að það sé í lagi að gerðar séu til­raunir á íbúum Reykja­nes­bæjar sem margir hverjir upp­lifðu tals­verð veik­indi á meðan þessi rekstur var í gangi. Breyt­ing á bygg­ingu mun að mínu mati ekki breyta neinu þar um nema þá helst að dreifa meng­un­inni yfir fleiri íbú­a,“ segir Guðbrandur Einarsson í viðtali við Kjarnann.

Og Hannes Friðriksson, einn af mörgum sem sjá ekki framtíð verksmiðjunnar fyrir sér í Helguvík segir við Kjarnann:

„Stjórn­endur Arion banka hafa nú í nokkurn tíma valið að láta svo líta út að kís­il­verk­smiðjan væri verð­laus í þeirra bók­um. Að vilji þeirra stæði til að sinna sínu „græna“ hlut­verki. Nú virð­ist breyt­ing hafa orðið og glýjan komin í augu þeirra. Kís­il­verð hefur farið hækk­andi og nú skal allt reynt til að koma kís­il­ver­inu í gott verð.

Svona sáu forsvarsmenn Sameinaðs Sílikons fyrir sér verksmiðjusvæðið fullbyggt þegar þeir kynntu þær fyriráætlanir á sínum tíma.