Fréttir

Metsala á fiskmörkuðum en fiskurinn fer mikið óunninn úr landi
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
fimmtudaginn 22. október 2020 kl. 13:28

Metsala á fiskmörkuðum en fiskurinn fer mikið óunninn úr landi

Verðmæti sölu á fiskmörkuðum fyrstu níu mánuði þessa árs er það mesta frá upphafi eða 24 milljarðar króna. Meðalverð var mjög hátt á síðasta ári en hefur hækkað um 3% á þessu ári og er 263 krónur á þorski fyrstu níu mánuði þessa árs. Meðalverðið fór í 451 krónu í september á þessu ári.

Eyjólfur Guðlaugsson, framkvæmdastjóri Reiknistofu fiskmarkaðanna, segir að salan á íslensku fiskmörkuðunum hafi verið mjög góð það sem af er ári en byrjaði rólega fyrstu tvo mánuði ársins. Vormánuðirnir frá mars til maí voru að hans sögn þokkalegir en salan í júní og júlí var mjög mikil og hefur aldrei verið hærri í sögu fiskmarkaða. Staðan breyttist lítið í ágúst og september sem voru báðir mjög góðir. Verðmæti sölunnar fyrstu níu mánuðina er þau mestu frá upphafi, alls 24 milljarðar króna.

Að sögn Eyjólfs hefur salan farið vel af stað í október og útlit er fyrir að 2020 verði eitt stærsta ár í magni og sennilega það stærsta í verðmætum frá upphafi á fiskmörkuðum landsins.

Þorskur er sem fyrr langstærstur tegunda, er nærri því annar hver seldur fiskur, og fer í 56% í söluverðmæti. Ýsa er næst með rúmlega 15% af heildarsölunni og rúm 16% í söluverðmætinu. Ufsi er rúmlega 8% sölunnar og í þriðja sæti en næst koma karfi, steinbítur og skarkoli. Það er talsvert lægra verð sem fæst fyrir karfa og steinbít en skarkolinn er 5,5% í söluverðmæti heildaraflans en 4,7% af heildarsölunni.

Eina sem skyggir á þennan góða gang í fisksölu á mörkuðum er að stærstur hluti aflans fer óunnin úr landi. Fiskverkandi sem Víkurfréttir heyrðu í sagði að það væri erfitt að keppa við þessa aðila sem flyttu allan fiskinn til vinnslu í útlöndum. „Ég fæ margar fyrirspurnir um störf í fiskvinnslunni þar sem ég er með tíu störf og gæti bætt við mig fólki en það er mikil barátta á mörkuðunum að fá fisk. Þessir aðilar hækka bara þegar maður býður í og kaupa megnið af fiskinum sem fer óunnin úr landi og skapar engin störf.“

Vert að skoða óheftan útflutning á ferskum, óunnum fiski

Gunnar Örlygsson, fiskverkandi og útflytjandi, sagði á Facebook-síðu sinni nýlega að til að stemma stigu við þessu atvinnuleysi væri vert að skoða óheftan útflutning á „heilum, ferskum, óunnum fiski“ frá landinu.

„Í dag flytjum við út tugir þúsunda tonna af óunnu hráefni frá okkur. Við flytjum út störf í þúsundatali. Auk þess fer þessi fiskur í erlendar vinnslur sem koma ekki nálægt íslensku eftirliti um matvælaframleiðslu og er þaðan dreift áfram sem „Origin of Iceland“. Í dag erum við að reyna að byggja upp orðspor okkar afurða með margvíslegum hætti, sem er vel. Við hins vegar erum að skjóta okkur harkalega í fótinn með að opna á mögulega slæma meðferð á íslenskum fiski þar sem varan blandast í erlendar fiskvinnslur með hráefni frá öðrum þjóðríkjum og selja svo sem íslenskan fisk. Til að byggja upp fyrirmyndarorðspor fyrir íslenskar sjávarafurðir eigum við að stuðla að því að hráefnið sé unnið og pakkað hér heima.

Með þessu magni sem um ræðir væri hægt að reisa tvær til þrjár stóreiningar eins og Samherji opnaði nýverið á Dalvík. Hver og ein myndi kosta sex til sjö milljarða, allt byggt upp af íslensku hugviti og íslenskum tækjaframleiðendum. Gerir fólk sér grein fyrir þeim ávinningi sem ríkissjóður, sveitarfélög og þjóðin öll er að missa frá sér í hverri viku? Þetta telur í tugum milljarða út um lensportið á hverju ári. Stjórnmálamenn eru geldir fyrir umræðunni, skilja hana kannski ekki flestir hverjir.

Vinnum að því saman að breyta þessari fásinnu, þjóðinni allri til heilla og ekki síst íslenskum sjávarútvegi til heilla,“ segir Gunnar Örlygsson.

Gunnar selur ekki bara fisk heldur er hann líka mikill áhugamaður um stangveiði.