Fréttir

Mesta virknin nærri Sýlingarfelli og Hagafelli
Svæðið þar sem virknin er mest.
Mánudagur 27. nóvember 2023 kl. 15:52

Mesta virknin nærri Sýlingarfelli og Hagafelli

Jarðskjálftavirkni var nokkuð stöðug síðustu daga og mældust um 500 skjálftar á sólarhring nærri kvikuganginum. Áfram er mest virkni nærri Sýlingarfelli og Hagafelli. Um miðnætti í dag hófst jarðskjálftahviða nærri Sýlingarfelli og virkni jókst tímabundið í rúma klukkustund. Um 170 jarðskjálftar mældust í hviðunni og voru þetta mest smáskjálftar en einn skjálfti mældist 3,0 að stærð. Skjálftavirknin var mest á um 3 – 5 km dýpi.

Út frá aflögunargögnum frá GPS mælum og gervitunglum sést að þensla heldur áfram við Svartsengi og aflögun mælist enn nærri kvikuganginum. Þó mældust engar breytingar á GPS mælingum í tengslum við jarðskjálftahrinuna í nótt. Bæði skjálfta- og aflögunargögn benda til þess að innflæði kviku haldi áfram bæði undir Svartsengi og í miðju kvikugangsins. Skjálftahrinan í nótt gæti verið vísbending um aukinn þrýsting í ganginum.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Í ljósi þessa og samtúlkun nýjustu gagna eru áfram taldar líkur á eldgosi yfir kvikuganginum á meðan innflæði kviku heldur áfram. Mesta hættan á að kvika komi upp er áfram á svæðinu milli Hagafells og Sýlingarfells. Hættumatskort sem Veðurstofan gaf út 22. nóvember er enn í gildi.

Frekari líkanreikningar hafa verið gerðir til að áætla umfang kvikugangsins sem myndaðist 10. nóvember. Þeir líkanreikningar benda til þess að hluti kvikugangsins gæti verið breiðari en áætlað var í fyrstu. Gróft áætlað gæti storknun breiðasta hluta gangsins því tekið nokkra mánuði.