Fréttir

Merkasta kona íslenskrar flugsögu heiðruð
Föstudagur 22. júlí 2022 kl. 14:01

Merkasta kona íslenskrar flugsögu heiðruð

Flugakademía Íslands mun heiðra Ernu Hjaltalín, mikinn frumkvöðul í íslenskri flugsögu, fimmtudaginn 28. júlí næstkomandi. Á þessum degi mun Flugakademían nefna eina af kennsluvélum skólans eftir Ernu og verður athöfnin haldin í verklegri aðstöðu Flugakademíu Íslands á Reykjavíkurflugvelli.

Erna Hjaltalín, fædd árið 1932, er ein merkasta kona íslenskrar flugsögu sem hefur veitt mörgum konum innblástur. Erna smitaðist ung af flugdellunni og vildi ólm kanna háloftin. Erna var fyrsta konan til að taka einkaflugmannspróf, atvinnuflugmannspróf og að öðlast réttindi loftsiglingafræðings. Erna fékk þó því miður ekki sömu tækifæri og samnemendur sínir í flugskólanum, sem allir voru karlmenn og fengu fastráðningu hjá Loftleiðum að loknu atvinnuflugmannsprófi. Erna var því hvorki fastráðin atvinnuflugmaður né loftsiglingafræðingur á sinni ævi, en þó átti hún að baki 217 klukkustundir sem flugmaður, 462 klukkustundir sem loftsiglingafræðingur og sem flugfreyja flaug Erna í fleiri tugi þúsunda klukkustundir.

Þrátt fyrir að Erna hafi ekki fengið sömu tækifæri og samnemendur sínir að þá ruddi hún svo sannarlega farveginn til framtíðar fyrir konur í flugi. Í dag er Ísland meðal fremstu þjóða hvað varðar kynjahlutföll flugmanna þrátt fyrir að enn sé rými til bætinga. Erna lést þann 14. maí 2021 og fá því afkomendur hennar þann heiður að fara í fyrstu flugferðina á nýnefndri Ernu Hjaltalín í lok athafnar. Athöfnin fer fram kl. 16.30 þann 28. júlí. Athöfnin er opin öllum og hvetjum við fólk til að mæta á svæðið og heiðra Ernu Hjaltalín.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Þetta er liður í því að heiðra frumkvöðla í íslenskri flugsögu en áður hefur Flugakademían nefnt kennsluvélar eftir Alfreð Elíassyni stofnanda Loftleiða, Arngrími Jóhanssyni flugstjóra og stofnanda Air Atlanta, Herði Guðmundssyni stofnanda flugfélagsins Ernis og Dagfinni Stefánssyni einum af stofnendum Loftleiða.