Fréttir

Magnús Kjartansson hlýtur Súluna - menningarverðlaun Reykjanesbæjar
Laugardagur 25. nóvember 2023 kl. 17:28

Magnús Kjartansson hlýtur Súluna - menningarverðlaun Reykjanesbæjar

Súlan, menningarverðlaun Reykjanesbæjar fyrir árið 2023, var afhent við skemmtilega athöfn í Rokksafni Íslands í Hljómahöll í dag . Verðlaunin eru veitt þeim sem stutt hafa vel við menningarlíf sveitarfélagsins og var þetta í tuttugasta og sjöunda sinn sem Súlan var afhent.  Að þessu sinni hlaut Magnús Jón Kjartansson tónlistarmaður verðlaunin fyrir framlag sitt til dægurtónlistar og tónlistarlífs í Reykjanesbæ. Verðlaunagripurinn er silfursúla eftir listakonuna Elísabetu Ásberg.

Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir forseti bæjarstjórnar afhenti Súluna fyrir hönd bæjarstjórnar og menningar- og þjónusturáðs sem tekur ákvörðun um val á verðlaunahafa. Við tilefnið sagði hún hverju bæjarfélagi mikilvægt eiga að fólk sem vinnur að uppbyggingu jákvæðra málefna í bæjarfélaginu og hefur lagt sitt af mörkum til að auðga mannlíf og menningu samfélagsins með fjölbreyttum hætti og að bæjarstjórn Reykjanesbæjar vilji með táknrænum hætti þakka fyrir það með veitingu menningarverðlaunanna. Við athöfnina flutti Magnús, ásamt Finnboga bróður sínum, tvær af perlum sínum, lögin To be Grateful og Lítill drengur.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Atvinnumaður í tónlist frá 15 ára aldri

Magnús Jón Kjartansson, sem fæddist í Keflavík þann 6. júlí 1951, þarf vart að kynna enda einn af þeim stóru í íslensku tónlistarlífi.  Segja má að tónlistarferill hans hafi hafist þegar stofnuð var drengjalúðrasveit við barnaskólann í Keflavík. Þar lék hann á trompet fyrst hjá lúðrasveitinni en síðan í Tónlistarskóla Keflavíkur. Magnús var aðeins  15 ára gamall, þegar hann fór að leika með hljómsveitum í klúbbunum á Keflavíkurflugvelli. Magnús stofnaði hljómsveitina Júdas með Finnboga bróður sínum og tveimur öðrum og lék með fjölda annarra hljómsveita eins og Trúbrot, Brunaliðinu, Óðmönnum, HLH-flokknum o.fl. Magnús  hefur verið einn afkastamesti hljóðvers tónlistarmaður landsins, stjórnað upptökum og útsett og samið tónlist fyrir eigin hljómsveitir og aðra flytjendur. Magnús hefur komið að vinnslu fjölmargra hljómplatna, þar á meðal eru sólóplötur Vilhjálms Vilhjálmssonar og margra annarra. Hann hefur starfrækt eigið hljóðver, stjórnað kórum m.a. Flugfreyjukórnum og Sönghópo Suðurnesja, samið þekkt lög, auglýsingastef og tónlist fyrir sjónvarpsþætti og kvikmyndir.

Meðfram þessu sinnti hann trúnaðarstörfum og beitti sér fyrir hagsmunum sinna félaga m.a. fyrir Félag tónskálda og textahöfunda, FTT,  þar sem hann var formaður og framkvæmdastjóri og samtök höfunda, STEF, þar sem hann var stjórnarmaður og formaður. Þessum störfum sinnti hann í yfir tvo áratugi. Magnús var gerður að heiðursfélaga FTT árið 2011. Í mars sl. hlaut Magnús heiðursverðlaun íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir framlag sitt til íslenskrar tónlistar.  Súlan, menningarverðlaun Reykjanesbæjar bætist nú í viðurkenningasafn Magnúsar.

Trausti Arngrímsson, formaður menningar- og þjónusturáðs Reykjanesbæjar afhenti Magnúsi Súluna, menningarverðlaun Reykjanesbæjar. VF-mynd/JPK.

Magnús með systkinum sínum, f.v.: Kjartan Már, Sigrún, Finnbogi, Magnús og Viktor.

Jóhann Páll tók fleiri myndir við afhendinguna í Hljómahöll og þær eru í myndasafni sem fylgir fréttinni.

Afhending Súlunnar 25. nóvember 2023