Magn kviku undir Svartsengi er nú meira en fyrir síðasta gos
Aflögunarmælingar sýna að landris heldur áfram á svipuðum hraða og síðustu vikur. Magn kviku undir Svartsengi er nú meira en það sem var áætlað fyrir eldgosið sem hófst 20. nóvember. Enn er talið að auknar líkur séu á kvikuhlaupi og eldgosi, og allt bendir til þess að það geti orðið innan næstu daga eða vikna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.
Línurit sem sýnir þróun kvikusöfnunar og áætlað heildarmagn kviku í kvikusöfnunarsvæðinu undir Svartsengi. Núllpunktur er miðaður við stöðuna áður en landris hófst í Svartsengi í októberlok 2023. Heildarrúmmál kviku undir Svartsengi er nú orðið meira en það sem safnaðist áður en fór að gjósa 20. nóvember síðastliðinn.
Reikna þarf með stuttum fyrirvara um eldgos
Miðað við fyrri atburði á Sundhnúksgígaröðinni má því ætla að vaxandi líkur séu á að næsti atburður hefjist innan nokkurra daga eða vikna. Talið er líklegast að kvika myndi fyrst koma upp á svæðinu milli Sundhnúks og Stóra-Skógfells. Það hefur verið tilfellið í sex gosum af þeim sjö sem hafa orðið frá því að eldvirknin hófst í árslok 2023. Undantekningin er eldgosið sem hófst í janúar 2024 þegar kvikan kom fyrst upp rétt suður af Hagafelli.
Áhrif frá eldgosi sem hefst á milli Sundhnúks og Stóra-Skógfells fer svo eftir því hvort gossprungan lengist í norður eða suður.
Jarðskjálftavirkni í kringum Sundhnúk hefur minnkað örlítið undanfarna daga ef litið er til síðustu vikna. Hins vegar getur slæmt veður síðustu daga haft áhrif á mælakerfið og takmarkað næmni á minnstu jarðskjálftana. Vegna endurtekinna atburða á Sundhnúksgígaröðinni þar sem kvikugangar og gossprungur hafa myndast hefur spenna í jarðskorpunni minnkað með hverjum atburði. Það þýðir að sífellt færri og minni skjálftar mælast á svæðinu vikurnar og dagana fyrir gos en gerðu í aðdraganda fyrstu eldgosanna.
Reikna þarf með mjög stuttum fyrirvara um eldgos, en í síðustu tveimur eldgosum liðu rétt um 30 –40 mínútur frá því að fyrstu merki um skjálftahrinu sáust þangað til eldgos hófst. Þau merki sem hafa sést þegar kvika leitar til yfirborðs eru áköf smáskjálftahrina á Sundhnúksgígaröðinni, þrýstingsbreytingar í borholum HS Orku í Svartsengi, aflögun á ljósleiðara og aflögun á yfirborði sem sést á rauntíma GPS-mælingum.
Hættumat óbreytt
Hættumat er óbreytt og gildir til 11. mars, að öllu óbreyttu. Sólahringsvakt Veðurstofunnar heldur áfram að fylgjast með stöðunni.