Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum tekur ekki einn ákvarðanir
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
miðvikudaginn 27. nóvember 2024 kl. 12:56

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum tekur ekki einn ákvarðanir

Veðurstofan spilar stórt hlutverk og þangað horfir lögreglustjóri helst til áður en hann tekur ákvarðanir um aðgengi inn á merkt hættusvæði samkvæmt hættumatskorti Veðurstofu. Hann horfir þó jafnframt til annarra þátta.

„Það er í mínum verkahring að gæta að öryggi fólks,“ segir Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum en hann hefur verið mikið í sviðsljósinu undanfarið vegna jarðhræringanna á Reykjanesi.
Að mati blaðamanns er líklega ekki á neitt annað lögregluembætti hallað ef því er haldið fram að embættið á Suðurnesjum sé með mest á sinni könnu því fyrir utan aðgangsstýringu í Grindavík, heyrir alþjóðaflugvöllur undir embættið með tilheyrandi tilraunum glæpamanna að smygla inn eiturlyfjum, flóttafólks í leit að öryggi o.s.frv. 
Þeir Grindvíkingar sem búa í Grindavík hafa ekki verið ánægðir með lögregluyfirvöld varðandi frelsi til athafna í Grindavík en fólki hefur ekki borið saman hvort kenna eigi ríkislögreglustjóra og þar með almannavörnum, eða lögreglustjóranum á Suðurnesjum, um. Á framboðsfundi Samfylkingarinnar í Grindavík sama dag og síðasta eldgos hófst, var oddvitinn í Suðurkjördæmi, Víðir Reynisson sem var yfirlögregluþjónn ríkislögreglustjóra/almannavarna, spurður út í ástæðu þess að almannavarnir settu pressu á fasteignafélagið Þórkötlu, að meina Grindvíkingum að gista í Grindavík. Víðir benti út á Reykjanes og sagði að valdið væri hjá lögreglustjóranum á Suðurnesjum.

Úlfar segir málefnið marg slungið en sá sem stýrir fasteignafélaginu Þórkötlu þarf í starfi sínu að taka tillit til sjónarmiða úr mörgum áttum í sínu starfi. Þá sé ekki óeðlilegt að hann sé undir vissu álagi hvað ákvarðanatökur varðar. Hingað til hefur aðilum gengið vel að ræða mál og taka skynsamlegar ákvarðanir að mati Úlfars. Hann gerir ekki athugasemdir við störf fasteignafélagsins Þórkötlu hingað til.

„Þú vitnar í Víði en það er rétt hjá honum að samkvæmt lögum um almannavarnir þá hefur lögreglustjórinn á Suðurnesjum vald til að fyrirskipa rýmingu úr Grindavík á hættustundu og stýra aðgangsmálum að öðru leyti en þessar ákvarðanir tek ég aldrei í einhverju tómarúmi, þá á ég við að málin eru rædd á daglegum fundum viðbragðsaðila. Þar eiga aðkomu m.a. almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, Veðurstofa Íslands og fulltrúar í aðgerða- og vettvangsstjórn hér á Suðurnesjum, Vegagerðin og nú síðustu mánuði, Grindavíkurnefndin.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Það að opna inn í bæinn í dag (mánudagur) er til að mynda afrakstur þeirrar samvinnu. Þá hlusta ég ávallt á það sem breiður hópur jarðvísindamanna hefur að segja innan Veðurstofu Íslands og háskólasamfélagsins. Þegar bærinn var rýmdur um daginn fær lögreglustjóri hringingu frá yfirmanni almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra um að íhuga þurfi rýmingu vegna upplýsinga frá Veðurstofu Íslands og þá tek ég ákvörðun um að rýma bæinn og Svartsengi. Þannig er verklagið og hefur verið til langs tíma.“

Ábyrgð

Úlfar lýsti betur hvernig hann tekur sínar ákvarðanir varðandi aðgang inn á hættusvæði.

„Fólk verður að gera sér grein fyrir að það er í mínum verkahring að gæta að öryggi fólks. Þó svo að sumum Grindvíkingum finnist ég of strangur í mínum fyrirmælum, þá þarf fólk að íhuga mína stöðu. Hver væri staða mín ef ég tæki til að mynda ekkert tillit til upplýsinga frá sérfræðingum Veðurstofu Íslands og svo færi eitthvað alvarlega úrskeiðis? Ég ber mína ábyrgð og því verð ég að ígrunda vel allar mínar ákvarðanir. Það hef ég reynt að gera hingað til og mun gera áfram. Samstarf almannavarna við sérfræðinga Veðurstofunnar og utan hennar er með miklum ágætum. Það er ekki þeirra hlutverk að taka ákvarðanir um aðgangsstýringar eða rýmingar en þeirra upplýsingar um stöðu mála skipta miklu áður en kemur að ákvörðunartöku lögreglustjóra. Ég ítreka það að stýring inn á gossvæði er í höndum lögreglu en ekki Veðurstofu Íslands. Um þetta ríkir ekki ágreiningur og eins og ég sagði áðan er samstarf aðila farsælt. Þá má ekki gleyma heimild ríkislögreglustjóra til að gefa fyrirmæli um brottflutnings fólks af hættusvæðum. En eins og við þekkjum hefur einu sinni reynt á þá heimild ríkislögreglustjóra.

Ég er ansi smeykur um að hinir gallhörðu Grindvíkingar geri sér ekki almennilega grein fyrir hvað við þó höfum gert varðandi aðgengi að bænum, ég leyfi mér að fullyrða að víða annars staðar en hér á landi væri allt lok, lok og læs við svipaðar kringumstæður. Það voru aðilar frá Japan inn í Svartsengi um daginn, m.a. til að skoða varnargarðana og kynna sér aðgerðir almannavarna á þessu rúma ári sem liðið er síðan jarðhræringarnar við Grindavík hófust. Þeim fannst magnað að sjá þessa tilkomumiklu varnargarða en engum dylst hversu miklu þeir hafa bjargað. Þá hefur verið horft til þess með jákvæðum hætti hvernig við stýrum aðgangsmálum bæði nú og áður inn við Fagradalsfjall. Góðar ákvarðanir hafa ekki alltaf verið teknar en ég held að Grindvíkingar megi vera nokkuð sáttir við það sem íslensk þjóð hefur þó gert til að verja byggð í Grindavík. Við horfum fram á veginn, dveljum ekki í fortíðinni og höldum áfram með réttsýni og bjartsýni að vopni,“ segir Úlfar.

Mikið álag

Hjá lögreglunni á Suðurnesjum hefur verið mikill erill. Úlfar lýsti stöðunni síðasta miðvikudagskvöld, þegar tíunda eldgosið hófst.

„Staðan hjá okkur þegar síðasta eldgos hófst kl. 23:17 á miðvikudagskvöld, var þannig að við vorum með tvær áhafnir á lögreglubílum inni í Grindavík, hver áhöfn telur tvo lögreglumenn. Við vorum með yfirsetu yfir fanga á lögreglustöðinni á Hringbraut vegna gruns um að hann bæri fíkniefni innvortis, það kallar alltaf á tvo lögreglumenn. Til að sinna þeim verkefnum sem komu upp í Reykjanesbæ, var önnur áhöfnin kölluð frá Grindavík til viðbótar þeirri sem var fyrir í Reykjanesbæ. Þá var kallað eftir aðstoð frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu til að hafa eftirlit með umferð um Reykjanesbrautina og svo þegar rýma þurfti Grindavík var aðstoð að fá frá lögreglunni á Suðurlandi við lokun Suðurstrandarvegar. Björgunarsveitir voru ræstar út, slökkvilið var til staðar, aðgerðastjórn hér í Reykjanesbæ tók til starfa og samhæfingarstöð almannavarna í Skógarhlíð var virkjuð. Lögreglumenn héðan eru ávallt í aðgerðastjórn undir stjórn lögreglustjóra. Álagið var mikið en einhvern veginn höfum við náð að láta dæmið ganga upp, þökk sé frábæru starfsfólki og sjálfboðaliðum. Ofan á þetta bætist síðan nokkuð stöðugt áreiti frá Keflavíkurflugvelli en við kvörtum ekki. Við erum að gera okkar allra besta og við viljum að sjálfsögðu geta unnið öll mál í samvinnu við aðra. Ég hef þá trú að Grindvíkingar megi horfa jákvæðum augum til framtíðar. Þó er enginn spámaður í þeim efnum og ég tel því miður þessum eldsumbrotum sé ekki lokið. Það þarf að gefa þessu tíma og við þurfum að komast inn á kyrrstöðu tímabil þar sem jörð hvorki rís, sígur eða skelfur yfir ákveðið tímabil.

Við opnum bæinn fyrr en áður við réttar aðstæður. Í yfirstandandi gosi verjum við orkuverið og þar með Bláa lónið þar sem hraun hefur sótt fast að varnargörðum. Þar eru menn að vinna þrekvirki í vörnum svæðisins. Hugað er að vatns- og rafmagnsöryggi á Suðurnesjum. Vonir standa til að Njarðvíkuræðin gefi sig ekki en ef svo illa fer eru menn undirbúnir fyrir viðgerðir. Svartsengislína gaf sig yfir nýrunnu hrauni og 350 bílastæði fóru undir hraun við Bláa lónið. Þykkt þess er áætluð allt að 9 metrum. Hraun rann yfir Grindavíkurveg og nú er að fylgjast með framvindu gossins og hvernig Vegagerðin og rekstraraðilar inn í Svartsengi koma til með að bregðast við nýjum áskorunum í þessum hamförum. Þótt dregið hafi úr sýnilegu gosi heldur það áfram en vonandi ekki til langs tíma. Það verður að koma í ljós. Frystitogari er við löndun í Grindavíkurhöfn og útgerðarfyrirtækið Vísir starfar í dag á svo til fullum afköstum, veitingastaðir eru að opna á ný, ég er tiltölulega bjartsýnn á framhaldið,“ sagði Úlfar að lokum.